Fara í efni
Menning

Kínversk blekmálun og skrautskrift – námskeið

Ling ritar hér táknið 'fu' sem merkir gæfa. Mynd: aðsend

Li Zhiling, kínversk listakona sem búið hefur á Íslandi hátt í tuttugu ár, leggur land undir fót í næstu viku og býður Norðlendingum upp á námskeið í kínverskri blekmálun og skrautskrift.

Í Kína eru skrautskrift og blekmálun gjarnan álitin æðsta listformið. Í þessu listformi mætast hið myndræna ritmál kínversku táknanna og hefðbundin mótíf náttúrunnar svo sem dýralíf og flóra landsins. Hefðbundin kínversk blekmálverk eru oft með línur úr kínverskum ljóðum eða málshætti málað lóðrétt á jaðar myndarinnar, eins og rithátturinn var á gamla mátann. Kínverska ritmálið er myndletur sem sprettur upprunalega út frá teikningum af fyrirbærum í lífi mannanna. Það er ákveðin kúnst að draga til stafs, eða tákns öllu heldur, ekki síst þegar málað er með blekpensli. Í Kína má oft sjá fólk æfa skrautskrift með stórum pensli úti á stétt, þar sem þau mála með vatni og táknin gufa smám saman upp af stéttinni á meðan á æfingunum stendur.

Myndir frá námskeiði Ling í Reykjavík síðasta vetur. Myndir: aðsendar.

Haldin verða tvö námskeið í samstarfi Konfúsíusarstofnunar og Myndlistaskólans á Akureyri og fara þau fram í húsnæði Myndlistaskólans í Listagilinu. Annars vegar er kvöldnámskeið ætlað 16 ára og eldri og hins vegar styttra námskeið fyrir börn á aldrinum 10-15 ára. Kvöldnámskeiðið hefst nk. mánudag 23. september og kennt verður frá kl.19-21, fjögur kvöld. Námskeiðið fyrir börn verður síðdegis þriðjudag og miðvikudag, 24. og 25. sept, frá kl.16:00-17:15.

Á námskeiðunum læra nemendur að beita blekpensli og mun Ling fara yfir kínverska skrautskrift, hefðbundin blekmálverk, kínverska litarefnanotkun og málunartækni auk samspils kínverskrar skrautskriftar og hefðbundinnar kínverskrar myndlistar. Námskeiðin eru því einstakt tækifæri til að læra hjá reyndri og skemmtilegri listakonu og allir velkomnir spreyta sig.

Ling, eins og listakonan er kölluð, þekkir Ísland og Íslendinga vel enda hefur hún verið búsett hér hátt í tuttugu ár sem fyrr segir. Aðspurð um lífið á Íslandi segist hún kunna vel að meta jafnræðið sem hún upplifi í samfélaginu og hve afslappaðir Íslendingar séu. Oft sé stutt í grínið og hún tengi vel við það.

Ling er útskrifuð sem myndmenntakennari frá kínverskum kennaraháskóla. Hún hefur kennt á samskonar námskeiðum í Reykjavík, bæði í Veröld - húsi Vigdísar í Reykjavík og á vegum Endurmenntunar HÍ auk þess að hafa margoft kynnt kínverska skrautskrift á viðburðum á vegum Konfúsíusarstofnunar. Ling er ástríðufullur og eldhress kennari sem elskar að miðla þekkingu sinni. Áhugasömum er bent á að senda fyrirspurnir og skráningar á netfang Konfúsíusarstofnunar: konfusius@hi.is.

Auglýsing um námskeiðin sem verða í boði.