Keyptu hús sem ekki er til á Tenerife!
Akureyrska fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir og eiginmaður hennar, húsasmíðameistarinn Matthías Kristjánsson keyptu hús í niðurníðslu á Tenerife í fyrra. Í vetur verða þau meira og minna á eyjunni með það sem megin verkefni að koma húsinu í stand.
Fjölskyldan keyrði frá Akureyri til Tenerife í ágúst – með viðkomu í skipum! – og hefur nú verið rúman mánuð á norðurhluta eyjunnar þar sem húsið er staðsett.
Snæfríður er lesendum Akureyri.net að góðu kunn fyrir skrif á vefinn. Blaðamaður sló á þráðinn og heyrði í henni, en þau Matthías ætla að leyfa lesendum Akureyri.net að fylgjast reglulega með gangi mála.
Snæfríður og Matthías eru búsett á Akureyri en eru núna stödd á Tenerife þar sem þau eru m.a. að gera upp hús í niðurníslu.
„Í fyrsta lagi þá keyptum við hús sem er hvergi til á pappírum svo í raun keyptum við lóð með húsi sem seljandinn vildi ekkert kannast við. Samt fengum við lykla að húsinu þegar kaupsamningur var undirritaður,“ segir Snæfríður. „Fyrir okkur Íslendinga hljómar það mjög undarlega að það sé hægt að selja hús sem opinberlega er hvergi til. Heimamönnum finnst þetta hins vegar ekki vera neitt tiltökumál enda mikið til af óskráðum húsum á Spáni. Á meðan hús er óskráð eru ekki greidd nein fasteignagjöld en þó er hægt að fá vatn, rafmagn og póst sendan heim að dyrum. Okkur finnst stórundarlegt að kerfin tali ekki saman, hvað þá að sveitarfélögin taki í mál að hafa þetta svona og verða þannig af fasteignagjöldunum. En við erum svo ný hérna að við þekkjum ekki alla söguna.“
Matthías er húsasmíðameistari og hefur komið nálægt uppgerð margra gamalla húsa og íbúða á Íslandi. Honum finnst spennandi að reyna á sig á nýjum slóðum.
Húsið fullt af drasli
„Okkar fyrsta verk eftir að við keyptum húsið var að fá það skráð því við vildum hafa allt á hreinu hjá okkur. Við fengum arkitekta til liðs við okkur sem mældu húsið upp og teiknuðu það eins og það er og við erum að bíða eftir því að skráningin renni í gegn. Þegar það er komið getum við sótt um framkvæmdaleyfi sem er nauðsynlegt til að hægt sé að byrja að vinna í húsinu af fullum krafti.
Það er samt alveg nóg að gera hérna þó við séum ekki enn komin með framkvæmdaleyfið. Í fyrsta lagi var húsið og lóðin full af rusli og við höfum verið að laga til hérna og henda drasli. Það hafði enginn búið hérna í 12-15 ár. Hústökufólk hefur greinilega reynt að koma sér fyrir hérna á einhverjum tímapunkti en dótið hérna er líklega eftir það sem og fyrri eigendur. Þá er garðurinn fullur af gróðri sem þarf að grisja, meðal annars er hér risastórt mangótré sem við verðum að fella og sundlaug sem þarf að brjóta.“
Hefði verið betra að rífa húsið?
„Hvað sjálft húsið varðar þá er það á tveimur hæðum, um 120 fermetrar og í afar lélegu ástandi. Kannski myndi einhver segja að það hefði verið betra að rífa það. Matthías vill hins vegar meina að það sé aldrei neitt ónýtt, það sé frekar spurning hversu miklum tíma og peningum þú vilt eyða í hlutina. Sem smiður hefur hann komið nálægt uppgerð margra gamalla húsa og íbúða á Íslandi og finnst spennandi að spreyta sig í nýjum aðstæðum þar sem áskoranirnar eru aðrar,“ segir Snæfríður. „ Okkur liggur líka ekkert á því að koma þessu húsi í stand enda segir Matthías að aðalmarkmiðið með uppgerð þess sé að læra spænskuna. Það hefur reyndar gengið ágætlega því við höfum heldur betur þurft að bregða henni fyrir okkur því fáir á þessum slóðum tala ensku. Yngsta dóttir okkar, Bryndís 10 ára, var að byrja í hverfisskólanum hérna og þar eru reyndar kennarar sem tala ágætis ensku, m.a. kennari sem bjó og starfaði í Keflavík.“
Skólinn er það lítill að fimmti og sjötti bekkur eru kenndir saman, enda hefur fæðingartíðni á Spáni fallið mikið, að sögn Snæfríðar, „þannig að þessi skóli er eiginlega hálf tómur. Það var því afar vel tekið á móti dótturinni,“ segir hún.
„Þessa stundina erum við í smá basli með að finna út úr því hvernig best er að koma tækjum að húsinu. Það kom í ljós að það er þyngdartakmörk í götunni okkar, auk þess sem aðkoman er þröng og brött. Ég held við séum samt að ná að finna lausn á þessu. Poco a poco, eða smá saman eins og Spánverjarnir segja.“
- Snæfríður og Matthías eru ekki einu Akureyringarnir sem eru í húsaframkvæmdum á Tenerife. Akureyri.net hefur áður sagt frá verkefni hjónanna Evu Óskar Elíasdóttur og Davíðs Kristinssonar. Smellið hér til að sjá þá umfjöllun.