Kaupir kaffibrennslu og flytur til Akureyrar
Kaffipressan á Akureyri hefur keypt rekstur handverkskaffibrennslu Kaffistofunnar sem starfrækt hefur verið í Hafnarfirði. Kaffibrennslan verður flutt til Akureyrar um miðjan febrúar.
Ármann Atli Eiríksson stofnaði Kaffipressuna árið 2020 og hóf starfsemina í færanlegum kaffivagni en opnaði kaffihús síðastliðið sumar neðst í Brekkugötu, við Ráðhústorg.
„Kaffistofan hefur verið leiðandi á sviði þróunar og sölu á handverkskaffi á Íslandi allt frá stofnun fyrirtækisins í ársbyrjun 2022,“ segir í tilkynningu þar sem greint er frá viðskiptunum. „Síðustu tvö ár hafa einkennst af örum vexti og hefur félagið selt kaffi í áskrift bæði til einstaklinga og fyrirtækja, en höfuðáhersla hefur verið lögð á milliliðalausa sölu í netverslun Kaffistofunnar. Félagið hefur starfrækt handverkskaffibrennslu í Hafnarfirði.“
Öflug sérkaffimenning
Í tilkynningunni segir að frá stofnun Kaffipressunnar hafi eigandi hennar einbeitt sér að því að byggja upp öfluga sérkaffimenningu á Íslandi. „Í ágúst síðastliðnum var sérkaffiverslun Kaffipressunnar opnuð í Brekkugötu 5, þar sem hún hefur getið sér gott orð meðal kaffiunnenda á Akureyri og víðar. Eftir kaupin á Kaffistofunni mun Kaffipressan taka upp nafn Kaffistofunnar fyrir sameinaða starfsemi. Kaffibrennslan verður flutt norður til Akureyrar um miðjan febrúar og má því búast við tímabundinni lokun sérkaffiverslunarinnar í Brekkugötu í 1–2 vikur, á meðan ný aðstaða verður sett upp. Reynt verður eftir megni að tryggja að ekki komi til truflana á afhendingu til áskrifenda Kaffistofunnar.“
„Við erum spennt fyrir þeim nýju tækifærum sem felast í þessum samruna. Með sameiningunni getur „nýja Kaffistofan“ haldið áfram að efla sérkaffimenningu á Íslandi með því að bjóða upp á fyrsta flokks kaffi og gera hágæða kaffibaunir aðgengilegar fyrir landsmenn. Við teljum þetta vera eðlilega þróun fyrir okkur og byggir á sameiginlegum markmiðum fyrirtækjanna, þar sem mikil gæði og sanngjarnt verð er okkur sérstaklega mikilvægt,“ segir Ármann Atli Eiríksson framkvæmdastjóri og eigandi Kaffipressunnar.
Hefur sterka stöðu
„Ég er mjög spenntur fyrir þessum breytingum og er sannfærður um að Kaffistofan á eftir að vaxa og dafna í höndum nýrra aðila. Samlegðin milli fyrirtækjanna er augljós og sameinað fyrirtæki hefur sterka stöðu til að láta að sér kveða á þessum markaði,“ er haft eftir Sverri Berg Steinarssyni, fyrrum eiganda Kaffistofunnar.
Þar segir: „Kaffistofan er stofnuð á grunni áralangrar ástríðu stofnandans Sverris Berg Steinarssonar fyrir gæða kaffi. Kaffistofunni var ætlað að auka framboð á handverkskaffi og leggja sitt af mörkum við að auðga kaffimenningu á Íslandi. Sverrir Berg hefur langa reynslu úr viðskiptalífinu og hefur stýrt fjölbreyttum verkefnum og fyrirtækjum meðal annars á sviði tækni, verslunar og afþreyingar. Sverrir mun nú snúa sér alfarið að rekstri Greindar ehf. sem er ráðgjafafyrirtæki á sviði viðskiptagreindar,“ segir í tilkynningunni.