Fréttir
Kaldasti desember á Akureyri síðan 1973
03.01.2023 kl. 19:00
Litli fiskimaðurinn við Menningarhúsið Hof; styttan, sem er eftir listamanninn Knut Skinnerland, var gjöf frá norska vinabænum Álasundi á 100 ára kaupstaðarafmæli Akureyrar 1962. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Nýliðinn desember var sá kaldasti á Akureyri síðan 1973 og sjöundi kaldasti desember mánuður í höfuðstað Norðurlands frá upphafi mælinga. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
- Á Akureyri var meðalhitinn – eða meðalkuldinn! – í desember –5,3 stig, 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
- Á Akureyri mældist úrkoman 64,9 mm sem er um 90% af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020.
- Víða um land var óvenju þurrt í desember en á Akureyri mældist úrkoma 1,0 millimeter eða meiri 14 daga mánaðarins, tveimur fleiri en í meðalári.
- Snjór kom óvenju seint þennan veturinn, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Fyrsti alhvíti dagurinn á Akureyri var skráður 11. desember, og er það í fyrsta sinn sem ekki verður alhvítt þar fyrr en í desember.
- Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 0,9, sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Í Reykjavík hefur desember ekki verið eins kaldur í rúm 100 ár en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Meðalhitinn í borginni í nýliðnum desember var –3,9 stig og er það 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. „Meðalhiti desembermánaðar hefur aðeins þrisvar sinnum verið lægri í Reykjavík, en það voru desembermánuðir áranna 1878, 1886 og 1880 (þá var mun kaldara),“ segir á vef Veðurstofunnar.
Nánari tölfræði má sjá hér á vef Veðurstofu Íslands.