„Káinn eina alvöru kímniskáld Íslendinga“
Akureyringurinn Káinn er mörgun kunnur sem skemmtilegur hagyrðingur en eflaust eru margir sem þekkja hvorki haus né sporð á þessu orðheppna kímnniskáldi sem fæddist 1859 en hleypti heimdraganum 18 ára og bjó lengstan hluta ævinnar í Vesturheimi. Jón Hjaltason, sagnfræðingur, hefur skrifað og gefið út bók um Káinn.
Bókina kallar Jón Fæddur til að fækka tárum en það er hending úr ljóði Richards Beck sem ritað er á minnisvarða Káins í Þingvallakirkjugarði í Norður-Dakóta.
Káinn hét réttu nafni Kristján Níels Jónsson, Níels eftir Níelsi skálda sem var frægur maður á sinni öld og afabróðir Káins. „Kristjánsnafnið er án efa komið frá móður hans sem var Þórunn Kristjánsdóttir. Kristján fór vestur 1878, vafalítið fyrir hvatningu frá eldri bróður sínum, Jóni Júlíusi sem fluttist tveimur árum fyrr til Kanada,“ segir Jón Hjaltason.
Kristján tók sér ættarnafnið Júlíus fyrir vestan, og varð K.N. Júlíus upp á ameríska vísu; K.N. varð svo Káinn!
Fyrstu árin vestra bjó Kristján í Winnipeg í Kanada en lengstum í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Þar starfaði hann fjóra áratugi sem vinnumaður hjá Önnu Geir og börnum hennar. Anna var fimm barna móðir og nýorðin ekkja þegar Káinn kom til starfa.
Gjarnan er talað um Kristján Níels sem drykkfelldan vinnumann en afar barngóðan. Jón telur það sannleikanum samkvæmt og vitnar í hagyrðinginn sjálfan:
Byrja og enda árin mín
öll á brennivíni.
„Það kemur því skemmtilega á óvart þegar rennur upp fyrir manni að Káinn bjó helming ævinnar við algert áfengisbann, nefnilega í Norður-Dakóta. Það var ekki fyrr en seinasta árið sem hann lifði að eitthvað slaknaði á banninu. Á því leikur hins vegar enginn vafi að Káinn braut þetta bann margoft og lenti í veseni við yfirvöld en fyrir vikið hrukku margir gullmolar úr penna hans þar sem hann dregur dár að yfirvöldum og templurum en hampar Bakkusi,“ segir Jón Hjaltason.
Káinn orti til dæmis um frægan templara vestan hafs:
Goodtemplarar græddu á að fá hann;
gaman þótti okkur að sjá hann!
Oft er ég að óska og vona
að ég gæti logið til svona.
Við annað tækifæri sagði hann:
Allir vita að án víns
ekki get ég lifað.
Jón tekur þannig til orða að á því sé enginn vafi að Káinn hafi verið „framúrskarandi barngóður. Hann hafði sjálfur búið við erfiða æsku, drykkjusjúkan föður sem varð illur með víni. Þetta sat í honum og hann gætti þess þegar fjölgaði á heimili Geir-fjölskyldunnar að láta börnin aldrei upplifa það sem hann hafði sjálfur búið við í æsku. En hann var gallagripur og fann til þess, stundum sárlega, segir Jón, og bendir á þessa vísu:
Hreina ást og hjartans yl
hefi ég ekki’ að bjóða
en allt sem skást er í mér til
áttu, barnið góða.
Þegar Jón er spurður um lífshlaup Káins vísar hann beint í manninn sjálfan, þegar hann var beðinn um að taka saman eigið æviágrip:
Blóðið í æðunum brann
ef brautin var framundan slétt.
Pegasus frægan ég fann,
á folanum tók ég mér sprett.
Lofthræddur löngum ég var
því lífið á himnum ei skil.
Um foldina fákur mig bar
en flaug ekki skýjanna til.
Bakkus í taumana tók –
að teyma mig var honum kært.
Svo gaf hann mér brennivínsbók,
á bókina þá hef ég lært.
„Káinn var alla tíð verkamaður, fyrst í Winnipegborg, síðan um skamma hríð í Duluth og seinast í Norður-Dakóta þar sem hann andaðist haustið 1936. Þannig var ævi skáldsins í hnotskurn,“ segir Jón Hjaltason.
Hvers vegna fórstu út í að skrifa sögu hans?
„Ætli mér hafi ekki runnið blóðið til skyldunnar. Við eigum það nefnilega sameiginlegt, ég og Káinn, að vera báðir Akureyringar. Hann er líka afar sérstakur meðal skálda. Ég vil raunar fullyrða að hann sé eina alvöru kímniskáldið sem Íslendingar hafa eignast. Oft og tíðum yrki ég/öðruvísi en hinir, sagði hann sjálfur.
En Káinn átti líka til viðkvæmni sem snertir hjartastrengi:
En eins og barnið, þegar sól er sest,
þú sefur vært hjá þeim er unnir best.
Þannig voru það kannski fyrst og fremst ljóðin sem drógu mig að skáldinu. Mig langaði til að grafast fyrir um kveikju þeirra og úr varð þessi ævisaga Káins.“
Lagðistu í mikla rannsóknarvinnu?
„Markmið mitt er ætíð hið sama en um leið gjörsamlega utan seilingar, nefnilega að vita allt um viðfangsefnið. Ég fer því alltaf á bólakaf og út í alls konar ranghala með verkefni mín. Káinn var þar engin undantekning á.“
Var eitthvað sem kom þér sérstaklega á óvart við skrif bókarinnar?
„Það er margt í þessari sögu Káins sem ég hafði ekki áttað mig á. Til dæmis hversu landar hans vestan hafs voru lengi hikandi í afstöðu sinni til skáldsins. Þeir áttuðu sig ekki á fyndninni, héldu öðrum þræði að Káinn væri að draga dár að þeim. Það var í raun ekki fyrr en menn heima á Íslandi fóru viðurkenningar orðum um Káinn að sól hans tók að hækka á lofti. En þá sló hann líka í gegn svo um munaði þó seint væri á ævinni.“
Byrjaði hann ungur á þessari vísnaleikfimi?
„Ónefndur leikbróðir Káins í Kristnesi lýsti honum svo: „Var hann glaðlyndur og gamansamur, og stundum dálítið glettinn við sína líka, bæði í orði og verki. Hann var snemma orðheppinn og skrítinn í orðatiltækjum, og orðaleikur sá, sem kemur fram í kvæðum hans, var þá þegar farinn að gera vart við sig. Spurningunni er því óhætt að svara játandi.“
Kveðskapur Káins er jafnan afar skemmtilegur. Er eitthvað sérstakt um hann að segja að öðru leyti?
„Ég viðurkenni fúslega að ég geri ekki minnstu tilraun til að greina ljóð Káins eftir bragarháttum eða öðru er lýtur að reglum kveðskapar. Í mínum augum eru þau heimild um ævi skáldsins og þannig nota ég þau óspart, til að varpa ljósi á Káinn og samfélagið sem hann þreifst í. Hann lét nefnilega fátt fram hjá sér fara án þess að leggja orð í belg, oftast hnyttna vísu, þó kom fyrir að hann varð grimmur. Til dæmis þegar séra Magnús Jónsson, seinna alþingismaður og ráðherra, gaf út smáritið Vestan um haf og fór ekki fögrum orðum um Vestur-Íslendinga. Þá sagði Káinn: Þeir halda að fjandinn hafi sent þig hingað vestur,“ segir Jón Hjaltason.
Káinn var þó oftast, segir Jón, á þessum nótum:
Man ég tvennt sem mér var kennt á Fróni
og minnkun ekki þótti þá:
það var að drekka og fljúgast á.
Jón Hjaltason telur ekki vafa á því að vísur og ljóð Káins eigi erindi í nútímanum.
„Já, heldur betur myndi ég segja. Og kannski aldrei eins og einmitt um þessar mundir. Káinn var nefnilega þrátt fyrir allan gáskann þungur á bárunni. Hann átti skuggabaldur í sálinni sem hann hélt í skefjum með gamansemi. En það er einmitt húmor sem við þurfum á að halda í baráttu okkar við pödduna vondu sem hótar ekki aðeins líkamlegri heilsu okkar heldur einnig hinni andlegu. Og þá er gott að eiga Káinn.“