Fara í efni
Íþróttir

KA vann Víking og KA/Þór burstaði Berserki

Patrekur Stefánsson gerði þrjú mörk fyrir KA í kvöld og var drjúgur í vörninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn komust á sigurbraut á ný í kvöld þegar þeir lögðu Víkinga að velli 27:24 í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þá vann KA/Þór stórsigur á liði Berserkja, 36:7, í bikarkeppni kvenna.

KA-strákarnir höfðu tapað þremur leikjum í röð í deildinni en fögnuðu nú sigri á heimavelli Víkinga við Safamýri í Reykjavík.

Staðan í hálfleik var 14:11 fyrir KA og lokatölur 27:24. Með sigrinum færðist KA upp í sjötta sæti deildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn en á lokakaflanum læddust KA-menn fram úr. Í seinni hálfleik bættu þeir í, komust mest fimm mörkum yfir, en munurinn var þrjú mörk í lokin sem fyrr segir og sigur KA aldrei í raunverulegri hættu.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 6 (5 víti), Ott Varik 5, Jóhann Geir Sævarsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Dagur Árni Heimisson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Ólafur Gústafsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1.

Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 6 (31,6%), Bruno Bernat 3 (21,4%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Staðan í deildinni

Ekki þarf að hafa mörg orð um leik KA/Þórs og Berserkja í bikarkeppni kvenna í handbolta. Liðin mættust í Víkinni og Stelpurnar okkar unnu 36:7. Berserkir eru nýliðar í neðri deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni, og eru þar í neðsta sæti án stiga. 

Smellið hér til að sjá tölfræðina úr bikarleiknum.