Fara í efni
Íþróttir

KA sigraði Fram og fór úr botnsætinu

Sigurmarkið! Daníel Hafsteinsson skallar boltann eftir fyrirgjöf Hans Viktors Guðmundssonar þegar sex mínútna uppbótartími var tæplega hálfnaður í kvöld - og andartaki síðar lá boltinn í netinu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði Fram 3:2 í Bestu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á heimavelli  í kvöld og færðist þar með úr neðsta sæti deildarinnar upp í það næst neðsta. 

Sveinn Margeir Hauksson kom KA yfir strax á áttundu mínútu með laglegu marki, Kennie Chopart jafnaði á 12. mín. með skalla eftir horn og Chopart náði forystu fyrir Fram á 36. mín. með skalla frá vítateigslínu eftir ægileg mistök Steinþórs Más, markvarðar KA.

Framarar voru mun betri lengi vel í seinni hálfleik og ekki útlit fyrir að KA-menn nældu í stig, en þeim óx mjög ásmegin síðasta korterið og Daníel Hafsteinsson skoraði þá tvívegis. Tryggði þar með sætan, langþráðan og gríðarlega mikilvægan sigur. 

Daníel kom inn á þegar hálftími var eftir. Fyrra markið hann á 78. mín. af stuttu færi eftir fyrirgjöf annars varamanns, Ingimars Torbjörnsson Stöle. Sigurmarkið skoraði Daníel með föstum skalla eftir sendingu Hans Viktors Guðmundssonar. Þá voru tvær mínútur voru liðnar af sex mínútna uppbótartíma.

KA er nú komið með átta stig en Fylkir er með sjö og leikur gegn FH í kvöld.

Meira í kvöld