Fara í efni
Íþróttir

KA-menn neðstir fyrir leikinn við Blika

Birgir Baldvinsson og Bjarni Aðalsteinsson, sem fagna hér fyrra marki þess síðarnefnda í 3:0 sigri á Fram í bikarleiknum á dögunum, hafa báðir leikið vel undanfarið. Í gær voru þeir úrskurðaðir í eins leiks bann í bikarkeppnini og missa af undanúrslitaleiknum gegn Val. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA leikur við Breiðablik í Kópavogi í kvöld í Bestu deild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 19.15 og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Eftir leiki gærkvöldsins þar sem Fylkir sigraði Vestra 3:2 og HK lagði Fram 2:1 er KA í neðsta sæti Bestu deildarinnar. Hefur fimm stig að loknum níu leikjum. Fylkir er kominn með sjö stig og Vestri 10, bæði eftir 10 leiki. Með sigri í kvöld kæmust KA-menn upp fyrir Fylki, yrðu með átta stig og færu í næst neðsta sætið.

Þetta er í fyrsta skipti sem KA vermir botnsæti efstu deildar Íslandsmótsins síðan liðið hóf að leika þar á ný sumarið 2017. KA var síðast neðst í efstu deild fyrir 20 árum, í lok Íslandsmótsins árið 2004.

Breiðablik er í næst efsta sæti fyrir leikinn í kvöld með 22 stig og sigri Blikar í kvöld verða þeir aðeins einu stigi á eftir toppliði Víkings, bæði lið þá búin með 11 leiki.

KA hefur aðeins unnið einn leik í Bestu deildinni í sumar, gert tvö jafntefli og tapað sex leikjum. Liðinu hefur hins vegar vegnað vel í bikarkeppni KSÍ, er komið í undanúrslit og mætir Val á heimavelli miðvikudaginn 3. júlí. Sigri KA-menn í þeirri viðureign leika þeir til úrslita í bikarkeppninni þriðja árið í röð.

Þess má geta að tveir KA-menn, Bjarni Aðalsteinsson og Birgir Baldvinsson, voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann í bikarkeppninni og missa því að leiknum gegn Val. Bannið er vegna tveggja áminninga í keppninni í sumar; Bjarni fékk gult spjald gegn ÍR í 32-liða úrslitum, Birgir gegn Vestra í 16-liða úrslitum og báðir í leiknum við Fram í átta liða úrslitum.

Leikirnir sem KA á eftir í Bestu deildinni áður en henni verður skipt í tvennt:

Miðvikudag 19. júní
Breiðablik - KA

Sunnudag 23. júní
KA - Fram

Föstudag 28. júní
HK - KA

Mánudag 8. júlí
FH - KA

Sunnudag 14. júlí
Vestri - KA

Laugardag 20. júlí
KA - Víkingur

Mánudag 29. júlí
KR - KA

Þriðjudag 6. ágúst
KA - Valur

Sunnudag 11. ágúst
Fylkir - KA

Sunnudag 18. ágúst
KA - Stjarnan

Sunnudag 25. ágúst
Fram - KA

Sunnudag 1. september
KA - Breiðablik

Sunnudag 15. september
ÍA - KA