Fara í efni
Menning

Jónasarlög Atla Heimis í Akureyrarkirkju

Atli Heimir Sveinsson tónskáld.

Kór Akureyrarkirkju heldur vortónleka sína í kirkjunni laugardaginn 7. maí klukkan 16.00. Á dagskránni eru lög Atla Heimis Sveinssonar tónskálds við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson. Ásamt kórnum kemur fram barnakór, hljómsveit og einsöngvari. Þetta eru fjölskyldutónleikar, því ljóð Jónasar og lög Atla Heimis eiga erindi við unga jafnt sem aldna.

Lög Atla Heimis við ljóð Jónasar eru einstök og þar kveður við nokkuð annan tón en í þeim lögum sem við erum vönust að heyra. Þorvaldur Örn segist snemma hafa heillast af fegurð þessara laga. „Mér finnst nauðsynlegt að þau heyrist sem oftast og einhver þeirra verða í nýrri sálmabók. En mig langaði líka til að vinna með lögin í góðum og stórum kór og fór þess á leit við ættingja tónskáldsins að ég myndi útsetja lögin fyrir kór, en þau eru upphaflega einsöngslög. Því var afar vel tekið.“ Lögin sem kórinn syngur eru næstum öll í útsetningu Þorvaldar Arnar, en leikur hljómsveitarinnar er upprunalegar útsetningar tónskáldsins. Barnakór Akureyrarkirkju syngur svo tvö lög og Oddur Vilhelmsson bassi eitt.

Í grein í Morgunblaðinu 9. desember 2007 segir Halldór Blöndal að Bríet Héðinsdóttir hafi gaukað að Atla Heimi hugmynd um að semja einföld lög við ljóð Jónasar, og segir síðan: „Það er engin tilviljun, að Atli Heimir skuli hafa samið sönglög við ljóð Jónasar. Atli Heimir er rómantískur og hrifnæmur í eðli sínu. Mest hefur hann hrifist af Jónasi og Heine hinum þýska. Rómantísk tónlist 19. aldar rennur um æðar þessa framúrstefnulega, þýskmenntaða tónskálds, sem kann best við sig í Flatey á Breiðafirði. Þess vegna tók hann þeim kosti fagnandi að útsetja Jónasarlögin fyrir söngvara og Vínarkvartett, sem síðan kallaði sig Fífilbrekkuhópinn. Lögin voru frumflutt í lítilli sveitarkirkju á Skarði í Landsveit sumarið 1996. Næsta sumar fór hópurinn um Norðurland, í Bakkakirkju í Öxnadal, Grundarkirkju, Húsavíkurkirkju og til Grímseyjar. Signý Sæmundsdóttir söng með hópnum, frábær listamaður og sönn, – hún hafði hlýju í röddinni og einlægni hjartans sem mér fannst hæfa ljóðum Jónasar og lagakornum mínum, segir Atli Heimir.“

Þorvaldur segir gaman að vísa til þessa frumflutnings á Jónasarlögunum í Grímsey, ekki síst vegna þess að nú stendur yfir söfnun til styrktar nýrri kirkju í stað þeirrar sem brann 2021. „Aðgangurinn að tónleikunum á okkar laugardaginn er ókeypis og okkur langar til að fá sem flesta til að hlusta á þessa fallegu tónlist, en á tónleikunum ætlum við að taka á móti frjálsum framlögum í nýbyggingarsjóð kirkjunnar í Grímsey.“ Þess má geta að Jónasarlög Atla Heimis hafa komið út á plötu/diski, sem nefnist Íslands minni.

Jónasarlögin, fjölskyldutónleikar Kórs Akureyrarkirkju, verða í kirkjunni núna á laugardaginn, 7. maí, klukkan 16.00.