JÓNA – Vísnaúrval Jóns Ingvars á bók

Í haust kemur út bókin JÓNA – atkvæði og ambögur. „Í henni verður að finna úrval vísna hins bráðsnjalla hagyrðings og Akureyrings, Jóns Ingvars Jónssonar, sem því miður kvaddi alltof snemma,“ segir í tilkynningu frá bókaútgáfunni Hólum.
„Þetta verður um 160 síðna bók og þar vantar hvorki spaugsemina né galgopaháttinn. Eitt lítið dæmi um það:
Í MA kom Jón einhverju sinni of seint í íþróttatíma og þegar hann opnaði dyrnar inn í leikfimissalinn voru bekkjarfélagar hans að gera einhverjar æfingar á gólfinu og við honum blöstu tuttugu og fimm afturendar. Þá varð honum að orði:
Reigja búkar háls og hupp,
hefst þá sjúka atið.
Brosi ljúka allir upp
út um kúkagatið.
Aftast í bókinni verður minningarsíða og þar geta þeir áskrifendur, sem vilja minnast Jóns Ingvars, fengið nafnið sitt skráð. Verð bókarinnar, sendingargjald innifalið, verður kr. 7.990- og innheimtist fyrirfram. Hægt er að panta bókina í netfanginu: holar@holabok.is eða í síma 692-8508. Gefa þarf upp fullt nafn (sem verður skráð á minningarsíðuna), heimilisfang og kennitölu.“
Ritstjóri bókarinnar er Símon Jón Jóhannsson.