Fara í efni
Mannlíf

Jón Óðinn: Einlæg aðdáun á Grenivík

Jón Óðinn Waage fjallar um aðdáun sína á Grenivík og Grenvíkingum í dásamlegum pistli sem Akureyri.net birtir í dag.

Hann lék knattspyrnu tvö sumur með Magna fyrir margt löngu og kveðst hafa lært mikið af liðsfélögunum, ekki þó heldur meira um lífið almennt. „Væl var óþekkt en harkan þeim mun meiri, ekki þó á grófan hátt, meira svona ljúfmannlegan. Þegar þeir spörkuðu einhvern niður þá fannst þeim í góðu lagi ef að andstæðingurinn gerði það sama, voru jafnvel svekktir ef það var ekki reynt. Sársauki var eitthvað sem að þessi gaurar fundu ekki.“

Fyrsti leikurinn á Grenivíkurvelli er Jóni Óðni eftirminnilegur: „Að sjá allt þorpið samankomið var upplifun, allar götur síðan þá get ég þekkt Grenvíkinga hvar í heiminum sem ég hitti þá. Bringan, maður minn, bringan. Aldrei séð heilt þorp þar sem allir eru með breiða og þykka bringu. Þetta eru svona bringur sem menn reyna að þjálfa upp í líkamsræktarstöðvum, en þess þarf ekki á Grenivík, þær eru meðfæddar. Það sem fór í bringurnar var þó tekið af hæðinni.“

Ekki fer á milli mála við lesturinn hve vænt Jóni Óðni þykir um þorpið og fólkið. Enda lýkur hann pistlinum með þessum orðum:

„Aðdáun mín á Grenivík er sem sagt einlæg og mikil, svo mikil að síðustu tvær eiginkonur mínar eiga báðar ættir sínar að rekja til Grenivíkur.“

Pistill Jóns Óðins: Grenivík