Fara í efni
Fréttir

„Jólasnjór“ gleður um miðjan október

Leikskólabörn á hressandi göngu með kennurum í morgun. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Snjóföl blasti við Akureyringum þegar þeir nudduðu stírurnar úr augunum í morgun, svo þunnt að sumir tóku líklega varla eftir því. Eftir því sem leið á morguninn jókst ofankoman og þegar þetta er skrifað mætti að jólin séu á næsta leyti þótt dagatalið hermi að þau gangi ekki í garð fyrr en að tveimur og hálfum mánuði liðnum. Þungar snjóflygsur falla og þekja hálfnakta jörð og haft var á orði, á vinnustað þar sem Akureyri.net rak inn nefið í morgun, að nú vantaði ekkert nema jólalag í útvarpinu til að fullkomna stemninguna.

Lögreglan á Norðurlandi eystra nefndi á Facebook sinni fyrir skemmstu að farnar væru að berast töluvert af fyrirspurnum frá ökumönnum vegna reglna um nagladekk enda segir í þeim að þau megi ekki nota á tímabilinu frá 15. apríl til 31. október. „Í sömu reglum segir þó jafnframt um þetta tímabil að þá geti engu að síður verið þörf fyrir nagladekk vegna akstursaðstæðna. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur einmitt ávallt tekið tillit til slíkra aðstæðna. Svo verður líka þetta árið,“ segir lögreglan.