Jólakettlingar og fleiri listaverk í Freyjulundi
Hinn árlegi jólamarkaður í Freyjulundi verður á sínum stað um helgina. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, listakona, íbúi og staðarhaldari Freyjulundar segir að allt sé orðið tilbúið fyrir jólalega og huggulega helgi. Boðið verður upp á fjölbreytt sköpunarverk, en fjölskylda Aðalheiðar er listræn í meira lagi.
„Jón Laxdal heitinn, maðurinn minn, var myndlistarmaður eins og ég. Börnin okkar, Arnar Ómarsson, Þórey Ómarsdóttir og Brák Jónsdóttir eru líka öll listamenn. Kærasti Brákar, Þórir Hermann Óskarsson, er tónlistarmaður. Við erum eiginlega farin að kalla okkur Freyjulundarmafíuna í listum.“ Á markaðnum verða ýmis verk eftir heimilisfólkið, en lagt er upp úr að gera markaðinn huggulegan og boðið er upp á kaffi. „Við erum náttúrulega að bjóða inn á heimilið okkar, í rauninni, og við eigum notalega stund með því fólki sem kemur,“ segir Aðalheiður.
Listafjölskyldan sem tók Freyjulund upp á sína arma, heldur upp á 20 ára búsetuafmæli í ár. Mynd: aðsend
Í ár verður einstakt tækifæri til þess að skoða verk Jóns, en þau eru ekki aðgengileg nema hjá fjölskyldunni. „Jón á marga og mikla aðdáendur að sínum verkum, og nú gefst færi til þess að skoða og komast aðeins inn í hans heim,“ segir Aðalheiður. „Svo er húsið troðfullt af verkum eftir okkur öll, hér eru skúptúrar eftir mig í ýmsum stærðum, meðal annars litlum sem henta vel í jólagjafir til dæmis.“
Er Jólakötturinn ef til vill Eyfirðingur?
Litlir, svartir jólakettir eru meðal þess sem er vinsælast fyrir jólin af smá-skúlptúrum Aðalheiðar. „Ég hef verið að tala fyrir því að Jólakötturinn sjálfur eigi heima í Kötlufjalli sem er við utanverðan Eyjafjörð. Um nóvemberleytið vaknar hann af værum blundi og kemur til okkar í Freyjulund og gýtur þessum litlu dásamlegu jólakettlingum. Síðan leggur hann leið sína til Akureyrar þar sem hann kemur sér vel fyrir á Ráðhústorginu.“ Við þekkjum flest köttinn fína á torginu, með grænu augun sín, en hann var unninn í listasmiðju Aðalheiðar með fólki sem vinnur í Fjölsmiðjunni. „Að mínu viti, er Jólakötturinn allavegana búsettur í Eyjafirði,“ bætir Aðalheiður við og brosir.
Auk skúlptúra og myndlistar verða líka bækur, ljóðabækur og bókverk af ýmsu tagi til sölu, en það virðist vera fátt sem fjölskyldunni er ekki til lista lagt. „Það eru til dæmis fágæt bókverk þarna eftir Jón sem eru alveg frá því í Rauða húsinu, sem hann stóð fyrir ásamt hópi fólks. Svo hefur Þórey verið að mála rúnir á steina og því hægt að útvega sér galdradót líka.“
Margt forvitnilegt má skoða í Freyjulundi. Mynd: aðsend
„Við keyptum Freyjulund árið 2004, þannig að í ár höldum við upp á 20 ára búsetuafmæli hérna,“ segir Aðalheiður. Áður en Aðalheiður eignaðist húsið ásamt eiginmanni sínum hafði húsið þjónað ýmsum tilgangi. „Hér hafði verið skóli fyrir sveitina, hreppsskrifsstofur, fundaraðstaða og fleira. Fyrst og fremst var Freyjulundur félagsheimili Arnarneshrepps sem þá hét,“ segir Aðalheiður.
Hjónin fengu húsið afhent um sumarið árið 2004, en þá var húsið dæmt ónýtt og mikil vinna fyrir höndum. „Við þurftum að taka húsið alveg í gegn,“ segir Aðalheiður. „Það voru ekki einu sinni hitalagnir, búa til nýtt klóak og við þurftum meira að segja að búa okkur til nýtt vatnsból. Við einangruðum allt húsið og steyptum inni og úti.“ Að auki byggðu þau við húsið, 60 fm viðbyggingu. Það var svo á Þorláksmessu árið 2004 sem fjölskyldan flutti loksins inn.
Það eru ýmis konar bókverk á boðstólnum á markaðnum. Mynd: aðsend
„Við erum semsagt sex manns sem höfum eitthvað til sýnis og sölu á markaðnum,“ segir Aðalheiður. Markaðurinn hefur verið árlegur um langa hríð. „Við tókum þátt í uppbyggingu Listagilsins á sínum tíma og aðventumarkaðurinn byrjaði þá. Svo héldum við áfram eftir að við fluttum í Freyjulund og höfum haldið markaðinn hérna síðan. Það var alltaf markaður fyrstu helgina í aðventunni og síðustu, en undanfarin ár hef ég haft opið í anddyri Alþýðuhússins á Siglufirði milli helgarnar tvær.“
Skapandi heimili í tveimur fjörðum
Í dag býr Aðalheiður á tveimur stöðum, en hún er upphaflega frá Siglufirði. Fyrir 13 árum síðan keypti hún gamla Alþýðuhúsið í bænum, og það hús þjónar einnig margvíslegum tilgangi. „Alþýðuhúsið er heimili og vinnustofa eins og Freyjulundur,“ segir Aðalheiður. „Til viðbótar er þar vettvangur fyrir allskyns menningarstarf fyrir samfélagið. Við höldum listahátíðir, sýningar, tónleikar, ljóðalestra og hitt og þetta. Allt sem viðkemur listum og menningu. Það er eitthvað um að vera allan ársins hring.“
HÉR er hlekkur á aðventumarkaðinn í Freyjulundi á Facebook
HÉR er hlekkur á Facebook síðu Freyjulunds
Fleiri myndir frá markaðnum: