Jöfnunarstöð strætó við Glerártorg?
Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur samþykkt að stefnt skuli að flutningi jöfnunarstöðvar Strætisvagna Akureyrar að Glerártorgi á næstu 1-2 árum, en hún hefur verið við Hofsbót í miðbænum svo lengi sem flestir notendur strætisvagnanna muna. Vegna byggingaframkvæmda við Hofsbótina hefur aðstaða fyrir bílstjóra og vagnana þar verið færð til og hefur verið austan megin Hofsbótarainnra, við aðstöðuna hjá BSO, en nú eru uppi hugmyndir um að flytja þessa aðstöðu og byggja upp söfnunarsvæði, afdrep fyrir vagnstjóra og farþega sem skipta um vagna rétt við verslunarmiðstöðina Glerártorg.
Svæðið séð frá hringtorginu á Borgarbraut í austur. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Ef til vill væri nákvæmara að tala um að þessi fyrirhugaða jöfnunarstöð verði við Borgarbraut. Samkvæmt upplýsingum frá Andra Teitssyni, formanni umhverfis- og mannvirkjaráðs, er hugmyndin að nýta svæði norðan við Borgarbrautina og austan við hringtorgið, á bakka Glerárinnar. Þar verði komið fyrir aðstöðu og allir vagnar hafi viðkomu þar. Þjónusta við miðbæinn verði þá þannig að í það minnsta ein leið aki um miðbæinn, en ekki allar eins og nú er. Svæðið sem um ræðir er iðulega notað til losunar á snjó á veturna þegar hann er hreinsaður af götum og ekið burt.