Ívar Örn ekki með í dag – Jóan í hópnum
Knattspyrnujaxlinn Ívar Örn Árnason verður ekki með KA í Evrópuleiknum gegn írska liðinu Dundalk í dag vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í deildarleiknum gegn Keflavík á mánudaginn. Færeyski landsliðsframherjinn Jóan Símun Edmundsson, sem KA samdi við í vikunni, er hins vegar orðinn löglegur og verður í leikmannahópnum í dag.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um að fjarvera Ívars Arnar er mikil blóðtaka fyrir KA-liðið. Spánverjinn Rodri hefur sem betur fer náð sér af meiðslum sem urðu þess valdandi að hann gat ekki leikið gegn Keflavík og verður því að öllum líkindum við hlið Dusan Brkovic í hjarta varnarinnar. Rodri leikur jafnan sem aftasti maður á miðjunni og er gríðarlega mikilvægur í því hlutverki þannig að það, að hans njóti ekki við þar, er síður en svo ákjósanlegt.
Ívar Örn meiddist gegn Keflavík sem fyrr segir, lenti illa á öxlinni og svo virðist sem hún hafi farið úr lið en smollið í liðinn aftur. Það kom ekki í ljós fyrr en við nána skoðun á sjúkrahúsi. Ívari leið illa eftir leikinn þegar Akureyri.net náði í skottið á honum og enn verr daginn eftir. Leikmaðurinn hugðist gera allt sem hann gæti til að vera með í dag en nú er endanlega ljóst að af því verður ekki.
Leikur KA og Dundalk er í annarri umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Hann verður á Framvellinum í Úlfarsárdal í Reykjavík þar sem heimavöllur KA stenst ekki kröfur sem gerðar eru fyrir Evrópuleiki. Flautað verður til leiks kl. 18.00 og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Næsti leikur KA er gegn HK í Bestu deildinni á heimavelli á sunnudaginn og síðan halda KA-menn til Írlands þar sem seinni viðureign þeirra við Dundalk verður á fimmtudegi eftir viku.
Ekki er enn öruggt að serbneski miðvörðurinn Dusan Brkovic komist til Írlands með KA. Hann fékk ekki vegabréfsáritun til Englands í tíma þegar KA mætti Connah's Quay Nomads í fyrstu umferðinni. Írland er ekki hluti af Schengen svæðinu frekar en England og hlutirnir virðast ganga óvenju hægt fyrir sig nú þegar margir eru í sumarfríi á nauðsynlegum kontórum.