Fara í efni
Fréttir

ÍV mikilvægur hlekkur í uppbyggingu Skaga

Haraldur I. Þórðarson forstjóri Skaga í Akureyrarsólinni á þriðjudag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Starfsemi Íslenskra verðbréfa (ÍV) verður áfram á Akureyri og félagið verður mikilvægur þátttakandi í því verkefni að efla þjónustu Skaga á landsbyggðinni, að sögn forstjórans, Haraldar Þórðarsonar. Skagi undirritaði í vikunni samning um kaup á 97% hlutafjár í ÍV fyrir tæplega 1,6 milljarða króna.

Skagi er móður­fé­lag VÍS trygginga, Fossa fjárfestingabanka og SIV eignastýringar, og ÍV færist nú undir þann hatt. 

Auka þjónustu á landsbyggðinni

„Við erum í talsverðri uppbyggingu í Skagasamstæðunni. Við erum nýtt afl á fjármálamarkaði og mörkuð hefur verið skýr stefna um að efla starfsemi okkar og þjónustu á landsbyggðinni og Norðurland er miðpunktur í því verkefni, ekki síst Akureyri og svæðið þar í kring,“ sagði Haraldur Þórðarson við Akureyri.net.

„Hér á Akureyri erum við nú þegar með stærstu skrifstofu VÍS utan höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem við erum stórir hluthafar í T Plús, fyrirtæki hér í bæ sem þjónustar mörg fjármálafyrirtæki, meðal annars í Reykjavík. Við höfum notað þjónustu T Plús og stutt dyggilega við þá góðu starfsemi í mörg ár, bæði VÍS, Fossar fjárfestingabanki og SIV eignastýring.“

Það sem T Plús fæst við er gjarnan kallað bakvinnsluþjónusta í fjármálageiranum.

ÍV er fyrir alla

 - Ég spyr fyrir þá lesendur sem ekki vita: hvað eru Íslensk verðbréf? Við hvað fást menn þar?

„Íslensk verðbréf fást fyrst og fremst við eigna- og sjóðastýringu en einnig þjónustu á sviði markaðsviðskipta, kaup og sölu verðbréfa. En í grunninn er ÍV í því að ávaxta sparifé landsmanna, einstaklinga, fagfjárfesta og stofnanafjárfesta. Félagið hefur langa og góða sögu hvað það varðar.“

 - ÍV fæst sem sagt við það að ávaxta sparifé einstaklinga sem eiga ekki endilega háar fjárhæðir? Félagið vinnur ekki bara fyrir fyrirtæki eða þá efnameiri?

„Já, það er akkúrat málið og gott að þú nefnir þetta. Einn af styrkleikum Íslenskra verðbréfa í okkar huga er að félagið þjónustar fjárfesta, fólk sem getur sett sparnað sinn í sjóði hjá félaginu og ÍV hefur góða ávöxtunarsögu hvað það varðar. Það eru um 4000 kennitölur í viðskiptum hjá félaginu, ýmist í eignastýringu eða fjárvörslu.“

Gríðarleg reynsla í ÍV

Haraldur segir ætíð töluverðan aðdraganda að viðskiptum eins og þeim sem tilkynnt var um í gær. „Við höfum fylgst með Íslenskum verðbréfum í töluverðan tíma, félagið á sér langa sögu og vörumerkið er sterkt,“ segir hann.

Forstjórinn leggur áherslu á að hjá ÍV starfi öflugur hópur fólks sem búi yfir gríðarlegri reynslu. „Við ætlum að auka þjónustu okkar og byggja upp starfsemina þannig að hún verði til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar á svæðinu, bæði núverandi og verðandi. Við leggjum mikla áherslu á það því svæðið er mikilvægt í okkar huga og því erum við mjög ánægð með að fá þetta öfluga teymi hjá ÍV til að taka þátt í verkefninu, uppbyggingunni hér og raunar uppbyggingu samstæðunnar í heild sinni um allt land.

Haraldur nefnir að lokum að honum þyki ánægjulegt hve ÍV hafi verið virkur þátttakandi í samfélaginu: „Merki ÍV hefur verið á búningum ýmissa íþróttafélaga, frá yngri flokkum og alveg upp í meistaraflokk. Félagið hefur lengi stutt við slíka starfsemi og frá mínum bæjardyrum séð er það mjög jákvætt.“

Frétt Akureyri.net um viðskiptin:

Skagi kaupir Íslensk verðbréf á 1,6 milljarða