Fara í efni
Íþróttir

Íþróttapistlar – ný bók Ingimars Jónssonar

Dr. Ingimar Jónsson með nýju bókina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Dr. Ingimar Jónsson sendi nýverið frá sér bókina Íþróttapistlar, þar sem er að finna greinar af ýmsum toga um íþróttir. Margar þeirra hafa áður birst í dagblöðum eða tímaritum, m.a. í Íþróttamálum, félagsblaði Íþróttakennarafélags Íslands.

„Ætlun mín var að birta þessar greinar óbreyttar en ég komst að raun um að ekki var hjá því komist á grípa til smávægilegra breytinga á texta, meðal annars stafsetningu. Tækifærið nýtti ég mér til að bæta við upplýsingum til fróðleiks og einnig myndum þegar kostur gafst á því,“ segir Ingimar.

Í bókinni segir m.a. frá frægum kappsundum á Íslandi í upphafi 20. aldar, m.a. Nýárssundi, Íslendingasundi, fyrstu Engeyjarsundum kvenna og Drangeyjarsundi Péturs Eiríkssonar árið 1936. Fjallað er um fyrstu Ólympíuráðstefnuna og stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar, ólympíuhugsjónina og þátttöku Íslendinga í Ólympíuleikunum 1908, 1912 og 1936, ennfremur um upphaf Íþróttakennarafélags Íslands og Íþróttakennaraskóla Íslands.

Sagt er frá franska listamanninum og skákmeistaranum Marcel Duchamp, sem tvisvar þurfti að lúta í lægri haldi fyrir íslenskum skákmönnum, og þýska skákmeistaranum Ludwig Engels sem kom til Íslands árið 1936, og tefldi mörg fjöltefli og tók þátt í skákmótum í Reykjavík og á Akureyri.