Fara í efni
Fréttir

Íslandsmet: Dóra er 109 ára og 160 daga

Þessa mynd af Dóru, 107 ára, tók Áskell sonur hennar. Í bakgrunninum er skráning fæðingar og skírnar í prestsþjónustubók Grenivíkurprestakalls. Mynd af Facebook síðunni Langlífi.

Dóra Ólafsdóttir á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík hefur nú náð hærri aldri en nokkur annar hér á landi. Dóra er fædd 6. júlí 1912 í Suður-Þingeyjarsýslu og er því orðin 109 ára og 160 dögum betur. Jensína Andrésdóttir á Hrafnistu í Reykjavík átti áður Íslandsmetið, 109 ár og 159 daga, en hún lést vorið 2019. Þetta kemur fram á Facebook síðunni Langlífi í morgun.

Á síðunni segir ritstjórinn, Jónas Ragnarsson, jafnframt:

„Í rúma fjóra áratugi starfaði Dóra sem talsímakona hjá Landsímanum á Akureyri. Þórir Áskelsson eiginmaður hennar var sjómaður og seglasaumari. Hann var áhugamaður um íslenskt mál og vinur Davíðs Stefánssonar skálds.

Þórir og Dóra voru gefin saman í hjónaband 15. febrúar 1943, bæði um þrítugt. Þau bjuggu á Norðurgötu 53. Þórir dó í desember 2000, 89 ára. Þegar Dóra var hundrað ára flutti hún til Áskels sonar síns í Kópavogi en Ása dóttir hennar býr í Bandaríkjunum. Síðar sama ár fór Dóra á Skjól.

Hún hefur sagt í blaðaviðtölum að á æskuheimilinu hafi hún alltaf fengið hollan mat og að nýmeti hafi oft verið á borðum. Dóra telur að langt líf sé ekki síður að þakka reglulegri hreyfingu en hún gekk alltaf milli heimilis og vinnustaðar og fór reglulega í sund.

Áskell sonur Dóru segir að hún sé hress miðað við þennan háa aldur. Um daginn fór hún í margs konar rannsóknir hjá Íslenskri erfðagreiningu og kom meðal annars fram að hún væri með sterkt hjarta.

Dóra er áttundi elsti íbúi á Norðurlöndum, elst er sænsk kona sem er rúmum fjórum mánuðum eldri.

Aðeins einn Íslendingur hefur ná hærri aldri en Dóra. Það er Guðrún Björg Björnsdóttir sem var á fjórða ári þegar hún flutti með foreldrum sínum frá Vopnafirði til Vesturheims og var orðin 109 ára og 310 daga þegar hún lést, í ágúst 1998, á dvalarheimilinu Betel í Gimli í Manitoba í Kanada. Dóra getur bætt það met í maí á næsta ári.“