Fara í efni
Íþróttir

Íshokkí: SA sigraði Fjölni í spennuleik

Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði tvö af fjórum mörkum SA Víkinga í kvöld og átti að auki eina stoðsendingu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

SA Víkingar unnu eins marks sigur á liði Fjölnis í Hertz-deild karla í íshokkí þegar liðin mættust í Egilshöllinni í kvöld.

Uni Steinn Sigurðarson Blöndal opnaði markareikning SA Víkinga eftir tæplega fimm mínútna leik og Jóhann Már leifsson bætti við öðru marki áður en fyrsti leikhluti var hálfnaður. Heimamenn í Fjölni komust loks á blað þegar vel var liðið á annan leikhluta og ekki löngu síðar kom jöfnunarmark, Kristján Jóhannesson með sitt annað mark, staðan orðin 2-2 fyrir síðasta leikhlutann og von á skemmtilegum lokaþriðjungi.

Hafþór Andri Sigrúnarson kom SA yfir þegar tæpar 14 mínútur voru eftir af leiknum. Fjölnir skoraði mark þegar fimm mínútur voru eftir, en eftir að dómarar höfðu ráðið ráðum sínum var markið ekki dæmt gilt þar sem leikmaður Fjölnis hafði farið með kylfuna of hátt þegar hann skoraði. Heimamenn létu þetta ekki trufla sig og aðeins 41 sekúndu síðar komu pökknum aftur í markið og jöfnuðu í 3-3 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Sæla heimamanna stóð ekki lengi því rétt um mínútu eftir mark Fjölnis náði SA aftur forystunni þegar Hafþór Andri skoraði sitt annað mark.

Fjölnismenn freistuðu þess að jafna, tóku markmanninn sinn út af á lokamínútunni og sóttu ákaft sex á fimm, en SA Víkiingar náðu að verjast, unnu leikinn með eins marks mun og tróna því enn langefstir á toppi Hertz-deildar karla.

Fjölnir - SA 3-4 (0-2, 2-0, 1-2)

  • 0-1 Uni Steinn Sigurðsson Blöndal (04:47). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson.
  • 0-2 Jóhann Már Leifsson (09:16). Stoðsending: Uni Steinn Sigurðarson Blöndal, Hafþór Andri Sigrúnarson.
  • 1-2 Kristján Jóhannesson (32:34). Stoðsending: Viggó Hlynsson, Drew Jakob Barron.
  • 2-2 Kristján Jóhannesson (36:05). Stoðsending: Liridon Dupljaku.
  • 2-3 Hafþór Andri Sigrúnarson (46:42). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Arnar Helgi Kristjánsson.
  • 3-3 Martin Simanek (55:41). Stoðsending: Viggó Hlynsson.
  • 3-4 Hafþór Andri Sigrúnarson (56:53). Stoðsending: Uni Steinn Sigurðarson Blöndal, Ormur Karl Jónsson.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Kristján Jóhannesson 2/0, Viggó Hlynsson 0/2, Drew Jakob Barron 0/1, Liridon Dupljaku, Martin Simanek 1/0.
Varin skot: Þórir Aspar 42 (91,30%).
Refsingar: 8 mínútur.

SA
Mörk/stoðsendingar: Hafþór Andri Sigrúnarson 2/1, Jóhann Már Leifsson 1/2 , Uni Steinn Sigurðarson Blöndal 1/2, Arnar Helgi Kristjánsson 0/1, Ormur Karl Jónsson 0/1.
Varin skot: Jakob Ernfelt Jóhannesson 32 (91,43%).
Refsingar: 8 mínútur.

Leikskýrslan (ihi.is)

Þessi lið mætast aftur laugardaginn 11. nóvember og fer sá leikur fram í Skautahöllinni á Akureyri.

Upptöku af leiknum má finna á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands.