Innilaugin uppfærð og ný lyfta fyrir hreyfihamlaða
Ný lyfta fyrir hreyfihamlaða er væntanleg í Sundlaug Akureyrar á næstu vikum. Þá er forhönnun vegna uppfærslu á innilaug farin í gang en 200 milljónir hafa verið eyrnamerktar í það verkefni á næstu tveimur árum.
Sundlaug Akureyrar var nýlega kosin uppáhalds sundlaug Íslendinga í könnun á vegum Maskínu. Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður sundlaugarinnar er að vonum ánægð með niðurstöðuna en hún gerir ráð fyrir því að almenningur verði enn þá ánægðari með laugina og aðstöðuna þar þegar innilaugin hefur verið uppfærð og ný lyfta fyrir hreyfihamlaða verður komin í gagnið.
„Það er ekkert launungarmál að undanfarin ár hefur ríkt hálfgert neyðarástand hérna varðandi aðgengi fatlaðra og ég hef ekki verið stolt af því,“ segir Elín hjá Sundlaug Akureyrar en nú horfa mál til betri vegar þar sem ný lyfta er á leið í hús.
Lyfta fyrir hreyfihamlaða biluð frá upphafi
„Það er ekkert launungarmál að undanfarin ár hefur ríkt hálfgert neyðarástand hérna varðandi aðgengi fatlaðra og ég hef ekki verið stolt af því,“ segir Elín og útskýrir málið nánar. „Það var keypt mjög dýr og fín lyfta hingað en hún entist ekki lengur en í þrjú ár og hefur í raun verið biluð frá upphafi. Eftir hverja viðgerðina á fætur annarri héldum við alltaf að hún væri komin í lag. Það var mjög svekkjandi að hafa eytt svona miklum fjármunum í tæki sem reyndist ekki betur en þetta.“
Lyftan sem nú er til staðar fyrir hreyfihamlaða í Sundlaug Akureyrar. Lyftan er færanleg en erfitt að koma henni á milli hæða.
Í sundlauginni er nú ein færanleg lyfta og það er mikið bras að koma henni á milli hæða. „Það er búið að panta nýja lyftu en það tekur tíma að fá hlutina. Vonandi kemur hún innan fárra vikna hingað,“ segir Elín vongóð. Með tilkomu nýju lyftunnar segir Elín að aðgengi fyrir hreyfihamlaða verði allt annað. Þá verður hægt að hafa eina lyftu í innilauginni og aðra við útisvæðið. „Hreyfihamlaðir eiga því að geta komist ofan í báðar útisundlaugarnar, vaðlaug, kalda karið og tvo potta. Lyftan nýtist hins vegar ekki við gömlu pottana sem voru hannaðir fyrir löngu síðan og eru barns síns tíma og það stendur ekki til að breyta þeim.“
Aukin aðsókn í fjölnota búningsklefa
Á efri hæð sundlaugarinnar, þar sem gamla gufubaðið var áður er nú að finna fjölnota búningsklefa en þar er góð búningsaðstaða fyrir fatlaða, sturtubekkur o.fl. Þessir búniningsklefar hafa líka í síauknu mæli verið nýttir af kynsegin fólki. „Það er t.d að aukast að grunnskólanemendur í skólasundi sem þurfa að vera út af fyrir sig nýti þessa klefa og við erum ánægð með að geta sinnt þessum hópi,“ segir Elín.
Innilaugin í Sundlaug Akureyrar er barns síns tíma og til stendur að færa hana til nútímans á næstu tveimur árum. 200 milljónir hafa verið eyrnamerktar verkefninu.
Innilaugin barn síns tíma
Talið berst að innilauginni en þó mörgum finnist laugin sjarmerandi eins og hún er, þá er hún barn síns tíma og nauðsynlegt að færa hana til nútímans. „Það stendur til að taka hana í gegn á næstu tveimur árum og búið er að eyrnamerkja 200 milljónir í verkefnið. Hönnunarferlið er hafið og fyrstu frumdrög að líta dagsins ljós,“ segir Elín. Meðal annars verða háu bakkarnir teknir í burt og settir yfirfljótanlegir bakkar í staðinn sem gera munu laugina aðgengilegri fyrir alla. „Við erum alltaf að vinna í því að bæta hlutina hérna en sumt tekur lengri tíma en annað og það reynir oft sannarlega á þolinmæðina. En með tilkomu nýju lyftunnar og breytingunum á innilauginni þá erum við orðin nokkuð vel stödd,“ segir Elín.
Sundlaugin fjárfesti í rándýrri lyftu fyrir nokkrum árum sem staðsett var við þessa laug. Sú lyfta var alltaf að bila og hefur nú verið fjarðlægð. Búið er að panta nýja lyftu og er beðið eftir að hún komi í hús.