Innigarður og íbúðir „sem vaxa“ eftir þörfum

Þróunar-, þekkingar- og framkvæmdafélagið ÍBA 55+ vinnur nú að því að hugmyndir um lífgsæðakjarna með íbúðum fyrir eldra fólk verði að veruleika á Akureyri. Íbúðirnar hafa þá sérstöðu að íbúar þeirra eiga að geta búið þar út lífið þrátt fyrir að heilsan bili.
„Við höfum verið að funda með aðilum úr heilbrigðis- og fjármálakerfinu, öldrunarþjónustunni, heimahjúkrun og fleirum. Þá kynntum við þetta fyrir skipulagsráði bæjarins og fengum mjög góðar undirtektir þar. Eins höfum við fengið gríðarlega hvatningu frá hinum og þessum aðilum. Við erum mjög bjartsýnir á að þetta muni þróast út í framkvæmdir,“ segir Karl Erlendsson sem stendur á bak við verkefnið ásamt Guðmundi Magnússyni.
Íbúðir út lífið
Hugmyndir félagsins ganga í stuttu máli út á það að koma til móts við eldra fólk sem vill búa heima við góðar aðstæður þar sem það getur fengið heilbrigðis- og félagsþjónustu, ef og þegar takast þarf á við heilsufarsáskoranir á efri árum. Félagið sér fyrir sér að bjóða upp bæði leiguíbúðir og hlutdeildarleigu, eins og tíðkast t.d. í Mörkinni í Reykjavík. Horft er til fyrirmynda á Norðurlöndunum hvað hönnun húsnæðisins varðar en þar hafa lífsgæðakjarnar með innigörðum verið að ryðja sér til rúms.
„Við köllum þetta íbúðir út lífið því hugmyndin er sú að þetta félag fari í einstakar byggingar í samvinnu við byggingaraðila og íbúðirnar verði hannaðar þannig að þær séu gerðar fyrir heimahjúkrun og mikla þjónustu út lífið,“ segir Guðmundur. Hann segir að við byggingu íbúðanna verði hugsað út í atriði sem byggingaraðilar eru ekki venjulega að hugsa um, eins og rúmgóð bað- og svefnherbergi sem gera ráð fyrir hjálpartækjum og góðu aðgengi þannig að starfsfólk við heimahjúkrun eigi auðvelt með að athafna sig. „Fólk hefur kannski ekki þörf á neinni aðstoð í byrjun þegar það flytur inn í þessar íbúðir en ef til þess kemur þá á fólk að geta búið í sinni íbúð út lífið og forðast þannig stofnanavistun.“
Þá er einnig gert ráð fyrir að í einstaka verkefnum hafi íbúðirnar sameiginlegan innigarð sem allir íbúar hafi aðgang að. „Einmanaleiki eldra fólks er stórt lýðheilsuvandamál og vel heppnaður innigarður væri mikils virði í baráttunni gegn félagslegri einangrun. Fólk færi þangað út bæði til að hreyfa sig og hitta aðra,“ segir Guðmundur.
Guðmundur og Karl standa á bak við verkefnið ÍBA 55+. Þeir hafa fengið stuðning frá Drift EA við að vinna betur að viðskiptahugmyndinni og koma henni áfram.
Íbúðir með innigarði
Uppbygging lífsgæðakjarna á Akureyri hefur verið töluvert í umræðunni en hugtakið stendur fyrir húsnæði, þjónustu og aðbúnað sem eykur lífsgæði íbúa. Þannig samanstanda lífsgæðakjarnar oftast af hjúkrunarheimili, leiguíbúðum og þjónustumiðstöð. Ekki endilega í sama húsnæði heldur í nágrenni við hvort annað. Nýlundan við hugmyndir ÍBA 55+ er sú hvernig íbúðirnar eru hugsaðar, þ.e.a.s. að þær séu með innigarði og að þær geti vaxið að þörfum íbúanna ef að heilsan bilar og þjónustu er þörf.
„Bærinn skipaði starfshóp í fyrra um lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk í bænum. Ég átti sæti í þeim starfshóp ásamt bæjarstjóra og tveimur bæjarfulltrúum. Þessi hópur skilaði niðurstöðum í lok október og bæjarráð samþykkti í kjölfarið að það skuli stefnt að lífsgæðakjarna á Akureyri eins fljótt og auðið er. Þannig að við erum í raun bara að vinna í anda þess sem þar kom fram,“ segir Karl sem þekkir vel til málefna aldraðra í bænum en hann er formaður Félags eldri borgara á Akureyri. Guðmundur þekkir málaflokkinn líka vel en hann starfaði lengi innan heilbrigðisþjónustunnar. Hann var framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sjúkrahússins á Akureyri í 5 ár og var áður í sambærilegu starfi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þá hefur hann setið í stjórn Sjúkratrygginga Íslands í 10 ár og rekið leiguíbúðafélag.
Einmanaleiki eldra fólks er stórt lýðheilsuvandamál og vel heppnaður innigarður væri mikils virði í baráttunni gegn félagslegri einangrun. Fólk færi þangað út bæði til að hreyfa sig og hitta aðra.
Hér má sjá byggingu Bovieran í Helsinge. Undir glerþakinu er innigarður. ÍBA 55+ sér fyrir sér íbúðir á Akureyri í þessum anda.
Mörg svæði koma til greina
Aðspurðir hvernig hugmyndin að ÍBA 55+ hafi kviknað segir Karl að það hafi verið Guðmundur sem upphaflega hafi átt hugmyndina. „Þegar ljóst var að ekki yrði úr fyrirhuguðum byggingum í Þursaholti, sem var verkefni á vegum Búfesti í samvinnu við Félag eldri borgara, fór Guðmundur að þróa þessa hugmynd með ÍBA 55+. Búfesti ætlaði að byggja um 100 íbúðir fyrir eldra fólk en af því varð ekki og lóðunum var skilað til bæjarins,“ segir Karl.
Í kjölfarið fór Guðmundur að þróa og útfæra hugmyndina að ÍBA 55+. Hann kynnti hana fyrir Karli og saman fóru þeir að vinna betur í henni. Viðskiptahugmyndin var síðan kynnt fyrir Drift EA sem samþykkti hana inn í Hlunninn þar sem félagarnir hafa fengið stuðning við að vinna henni enn frekari framgang. „Við höfum verið að vinna í viðskiptaáætlun og afla upplýsinga hjá hinum og þessum sérfræðingum. Þá erum við að vinna í stofnun einkahlutafélags sem hefur vinnuheitið ÍBA 55+ og viljum fá inn í það fagaðila, fjárfesta og einhverja áhugamenn. Áhugasamir mega gjarnan hafa samband við okkur,“ segir Karl. Þeir ítreka að félagið hafi ekki fengið vilyrði fyrir neinum lóðum, enda verkefnið enn stutt á veg komið en að þeirra sögn komi ýmis svæði til greina í bænum og sum þeirra nú þegar eyrnamerkt að hluta íbúðum fyrir eldra fólk. „Þursaholtið er fyrsta svæðið sem við horfum til því þar á að byggja hjúkrunarheimili á vegum ríkisins og því tilvalið að byggja lífsgæðakjarna þar í kring. Síðan eru fleiri svæði sem koma til greina eins og tjaldsvæðisreiturinn og svo er komið á dagskrá að hefja skipulagsvinnu við lífsgæðakjarna sem yrði vestan við Hagahverfið og sunnan við Naustahverfið svona til framtíðar,“ segir Guðmundur.
Innigarður með þægilegu loftslagi allt árið um kring er miðpunktur þar sem íbúar geta hist, haldið veislur eða slakað á í gróðursælu umhverfi. Mynd: bovieran.dk
Vaxandi þörf fyrir húsnæði
Þörfin fyrir íbúðir fyrir eldra fólk á Akureyri er mikil og fer vaxandi með hækkandi aldri þjóðarinnar. Akureyri.net sagði nýlega frá því að 16 íbúðir í heilli blokk sem einkaaðili auglýsti til leigu fyrir eldri borgara hefðu allar leigst út um leið og þær voru auglýstar.
„Stefna heilbrigðisyfirvalda gengur út á það að íbúum á hjúkrunarheimilum muni hlutfallslega fækka, og það þýðir að hlutfallslega fleiri munu þurfa að búa heima á eigin heimilum og fá þjónustu heim. Þetta er ein af grunn forsendum fyrir íbúðum út lífið, þ.e.a.s. að mæta þessari þörf,“ segir Guðmundur og Karl heldur áfram. „Fjölgun þjóðarinnar er fyrst og fremst í þessum eldri aldurshópum og fólki yfir áttrætt á eftir að fjölga núna á næstu 20 árum um 150%. Færri af þeim komast þá inn á hjúkrunarheimili, sem er ekki heldur endilega æskilegt, það er betra að gera fólki kleift að búa heima en þá þarf fólk að fá þá þjónustu sem það þarf.“
Valkostur fyrir fólk 55+
Talið berst að nafni félagsins ÍBA 55+ sem gefur til kynna að um sé að ræða íbúðir fyrir fólk frá 55 ára aldri. En er fólk virkilega farið að hugsa um að koma sér í íbúð sem hentar heimahjúkrun á þeim aldri? „Fólk byrjar oft allt of seint að huga að þessu og er að skrölta í allt of stóru húsnæði fram eftir öllum aldri. En margir vilja skipta um húsnæði þegar börnin eru flogin úr hreiðrinu og þá er þetta valkostur sem kemur til greina. Fólk veit þá af honum og getur valið að fara í íbúð sem eru þannig hannaðar að það geti verið þar út lífið því þær bera heimaþjónustu ef til þess kemur,“ segir Karl og slær þar með botninn í þetta spjall.