Inniaðstaða GA ein sú besta á landinu

22 ungir kylfingar í landsliðshópi GSÍ, á aldrinum 14-24 ára eyddu helginni sem leið við æfingar á Akureyri. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri og landsliðsþjálfari hjá Golfsambandi Íslands, stýrði æfingunum. „Þessi hópur hittist eina helgi í mánuði til þess að æfa saman, og þetta er í fyrsta skipti sem við komum norður til þess að æfa,“ segir Ólafur Björn, en Golfklúbbur Akureyrar opnaði glæsilega nýja inniaðstöðu sína í lok síðasta árs, og Ólafur segir að hér sé þá komin ein allra besta aðstaðan til inniæfinga á landinu.
Þetta er eiginlega bara besta landsliðshelgi sem ég hef stýrt, á mínum fimm árum í þessu hlutverki
„Landsliðsstarfið er þannig að við nýtum veturinn í að koma saman í svona æfingahelgar,“ segir Ólafur Björn. „Þá eru æfingar, fræðsla og fyrirlestrar á dagskrá frá föstudegi til sunnudags. Hópurinn fer svo líka í eina æfingaferð til Spánar. Við höfum verið að flakka á milli klúbbanna á höfuðborgarsvæðinu á þessum landsliðshelgum, en það er mjög gaman að geta komið norður núna og þetta verður svo sannarlega endurtekið.“
Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri og landsliðsþjálfari hjá Golfsambandi Íslands. Mynd: RH
Ánægja í hópnum með æfingaferð norður
„Það er mikið af golfhermum á Íslandi, en þessir eru ofboðslega góðir og vandaðir,“ segir Ólafur Björn. „Svo er púttflötin stór og það er frábært fyrir okkur að fá að æfa hérna. Ég er búinn að vera í miklum samskiptum við framkvæmdastjóra og varaformann GA við undirbúninginn og þeir hafa verið mjög hjálpsamir og tekið vel á móti okkur. Við erum rosalega þakklát og krakkarnir eru mjög spennt fyrir þessu.“ Blaðamaður rölti um á æfingunni og spjallaði við kylfingana, og merkti mikla gleði með að taka æfingahelgi norður á Akureyri.
„Þrjú í hópnum búa á Akureyri, og það er gaman fyrir þau að þurfa ekki að fara suður svona einu sinni, og bjóða hinum heim í staðinn,“ segir Ólafur Björn. „Þetta er eiginlega bara besta landsliðshelgi sem ég hef stýrt, á mínum fimm árum í þessu hlutverki. Fyrir sunnan þá erum við að taka æfingar og svo tvístrast hópurinn á milli og fer heim eftir daginn. Þá náum við ekki þessari sömu dýnamík, en þessi ferð er frábær fyrir hópeflið. Krakkarnir kynnast betur og það skiptir rosalega miklu máli fyrir okkar bestu kylfinga að styrkja tengslin sín á milli.“
Hér er hægt að spila golf allan ársins hring.
Ný inniaðstaða Golfklúbbs Akureyrar á Jaðri er með þeim bestu á landinu, segir Ólafur Björn. Hér sést frá púttflötinni að golfhermunum, en þeir eru 6 talsins. Myndir: RH
Augljós kraftur og metnaður hjá GA
Ólafur Björn mætti á undan hópnum og tók fyrirlestur og æfingu fyrir kylfinga í GA á föstudeginum, en hann segir starfið hjá klúbbnum vera mjög gott. „Það er búinn að vera mjög augljós kraftur í klúbbnum sem maður hefur tekið eftir í mörg ár. Metnaðurinn er áberandi og það er flott hvað er hlúð vel að afrekskylfingum. Svo er þessi nýja aðstaða náttúrlega frábær fyrir alla í klúbbnum, ekki bara afreksfólk,“ segir Ólafur Björn.
Golfiðkun er í hröðum vexti á landsvísu, en Ólafur Björn segir að það hafi verið um það bil 8000 iðkendur um aldamótin en árið 2018 var talan komin í 17.000 og mætti reikna með að hún hafi hækkað töluvert síðan. „Mér finnst það náttúrlega ekkert skrítið, mér finnst þessi íþrótt æðisleg og það er náttúrlega hægt að spila golf frameftir öllu og byrja hvenær sem er. Það er reyndar ein af áskorununum, fyrir afreksstarfið, hvað það eru margir aðrir að iðka golf, en þess vegna er svo frábært að hafa svona stóra og góða aðstöðu, “ segir Ólafur Björn að lokum.
Ólafur Björn fylgist með æfingum. Í baksýn sést púttflötin. Mynd: RH
Nöfn ungu kylfinganna sem æfðu á Jaðri um helgina: Arnar Daði Svavarsson, Aron Emil Gunnarsson, Björn Breki Halldórsson, Guðjón Frans Halldórsson, Gunnar Þór Heimisson, Halldór Jóhannsson, Hjalti Kristján Hjaltason, Kristján Karl Guðjónsson, Máni Freyr Vigfússon, Óliver Elí Björnsson, Skarphéðinn Egill Þórisson, Skúli Gunnar Ágústsson, Veigar Heiðarsson, Auður Bergrún Snorradóttir, Bryndís Eva Ágústsdóttir, Elva María Jónsdóttir, Eva Fanney Matthíasdóttir, Eva Kristinsdóttir, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, Pamela Ósk Hjaltadóttir, Perla Sól Sigurbrandsdóttir og Sara María Guðmundsdóttir.