Inflúensan farin af stað og sóttvarnir mikilvægar
Inflúensa hrjáði hóp bæjarbúa í desember og var býsna skæð að sögn nokkurra sem veiktust og Akureyri.net ræddi við.
„Desember og janúar eru mjög dæmigerðir tímar til að sjá árlegan inflúensufaraldur koma af fullum þunga,“ segir Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir á HSN. „Það má því búast við að fólk sé að smitast af inflúensu næstu 3-5 mánuði, og núna mætti ætla að líklegt sé að faraldurinn nái hámarki í kringum næstu mánaðamót en það er vanalega mikið um smit í 2-3 mánuði.“
Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir að ekki hafi mikið borið á inflúensusmitum þar, en frekar hafi verið óvenju mikið um RS vírus. „Við vorum að sjá mikið af smitum hjá fullorðnum, en óvenju lítið hjá börnum, bara 2-3 börn þurftu að leggjast inn hjá okkur.“ Hún bendir á að inflúensufaraldurinn sé kominn af stað fyrir sunnan og yfirleitt séum við svona tveimur til þremur vikum á eftir höfuðborgarsvæðinu.
Miðað við þessa mynd af mælaborði öndunarfærasýkinga af heimasíðu Landlæknis, má sjá á rauðu línunni, sem táknar veturinn 2024-2025, að smit hafa aukist verilega síðustu tvær vikur ársins 2024. Jón Torfi minnir á mikilvægi þess að gæta að sóttvörnum.
„Svo hvetjum við til bólusetningar hópa sem skilgreindir eru í aukinni áhættu,“ segir Jón Torfi.
Áhættuhópar:
- Börn á aldrinum 6 mánaða - 4 ára
- Allir einstaklingar 60 ára og eldri
- Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum
- Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan
- Þungaðar konur (Ekki er til inflúensubóluefni sem nota má fyrir börn undir 6 mánaða aldri, en bólusetning móður á meðgöngu skilar mótefnum til barns sem talin eru veita vernd í a.m.k. 6 mánuði.)
Ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.
Rétt er að minna á að bóluefni veitir ekki 100% vörn og getur fólk fengið einkenni inflúensu þrátt fyrir bólusetningu.
Hægt er að bóka tíma í bólusetningu á Heilsuveru hjá Heilsugæslustöðinni á Akureyri í Sunnuhlíð. Síminn þangað er 432-4600.