Iðunn mathöll loksins á lokasprettinum
Opnun mathallar á Glerártorgi hefur tafist af ýmsum ástæðum. Rekstraraðilar segja að framkvæmdir séu á lokametrarnir og að Iðunn mathöll opni fyrir aðventuna.
„Okkur þykir leitt hvað þetta hefur tekið miklu lengri tíma en við gerðum ráð fyrir,” segir Guðmundur Péturson, annar rekstrarstjóri mathallarinnar á Glerártorgi. Með réttu hefði Iðunn mathöll átt að opna í september en ýmislegt hefur tafið framgang verkefnisins. Að sögn Guðmundar er nú búið að leysa úr þeim málum og lofar hann að mathöllin opni fyrir aðventuna, annars skuli hann hundur heita, eins og hann orðar það sjálfur. „Seinasti kaflinn er hafinn, allar innréttingar og tæki eru nú komin norður, svo það er bara verið að henda þessu upp.”
Seinkanir á seinkanir ofan
Nokkrar dagsetningar hafa áður verið gefnar út varðandi opnum mathallarinnar. Í byrjun árs sagði Akureyri. net frá því að mathöllin myndi opna snemmsumars samkvæmt upplýsingum frá þáverandi rekstrarstjóra, Kristjáni Ólafi Sigríðarsyni.
Nýir rekstrarstjórar tóku síðan við verkefninu, frændurnir Guðmundur Pétursson og Aron Lárusson, og sögðu þeir í viðtali við Akureyri.net í maí að mathöllin yrði opnuð í ágúst. Síðar um sumarið var talað um opnun í september.
HAF studio sá um hönnunina á Iðunni mathöll.
Áþreifanlegur áhugi á mathöllinni
Segir Guðmundur að mikið hafi verið hringt í þá frændur og spurt um stöðu mála. Segist hann fagna áhuga fólks á Iðunni mathöll og þakkar hann væntanlegum viðskiptavinum biðlundina, sem og veitingamönnum í mathöllinni, en eins og Akureyri.net hefur áður greint frá þá verða sex veitingastaðir í Iðunni mathöll, hver með sína sérstöðu.