Fara í efni
Mannlíf

Hæfileikaríkur hönnuður á Hjalteyri

Skartgripahönnuðurinn Katla Karlsdóttir er með vinnustofu á Hjalteyri og í Madríd. Myndir: Katlastudio

Katla Karlsdóttir er ung og upprennandi listakona sem bæði teiknar myndir og hannar skartgripi. Eftir að hafa menntað sig erlendis er hún komin aftur með annan fótinn við Eyjafjörð þar sem hún sækir innblástur í náttúruna.

Katla er með vinnustofu bæði í Madrid og á Hjalteyri en á síðarnefnda staðnum tekur hún gjarnan á móti gestum. Vinnustofunni, sem staðsett er í gömlu rannsóknarstofunum í Verksmiðjunni á Hjalteyri, deilir hún með kærastanum og myndlistarmanninum Vikari Mar, sem er einmitt með sýningu á verkum sínum út sumarið í Safnahúsinu á Húsavík. Parið er að fást við mjög ólíka hluti. Verk Vikars eru stór og unnin með frjálsri aðferð, á meðan verk Kötlu eru í fastari skorðum. Annars vegar fæst hún við skartgripahönnun og hins vegar við gerð á svarthvítum Maríu myndum. „Það er gott að geta gripið í hvoru tveggja. Þegar ég fæ nóg af skartgripagerðinni og finnst allt ómögulegt sem ég er að gera þá gríp ég í Maríurnar og öfugt,“ segir Katla. Viðfangsefnin gætu varla verið ólíkari því á meðan skartgripir hennar eru stórir og grófir eru Maríu myndirnar fíngerðar og fullar af litlum smáatriðum.


Skartgripir Kötlu eru stórir og grófir. Sjá nánar á heimasíðunni katla-studio.com

Lærði skartgripahönnun í Belgíu

Katla, sem er 28 ára gömul, er tiltölulega nýkomin aftur á gamlar slóðir eftir búsetu erlendis í mörg ár. Foreldrar hennar eru Sigríður Örvarsdóttir, nýráðinn safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Karl Karlson, dýralæknir. Hún á tvö systkini; Margréti Össu, sem hefur unnið í mörg ár í hátískugeiranum og Jökul sem hefur lengi búið til sína eigin tónlist, er menntaður hljóðmaður og starfar nú sem landvörður.

Sem barn ólst Katla upp að hluta til í Eyjafirði og gekk í Hrafnagilsskóla. „Mamma og pabbi eru frá Akureyri en ég er fædd í Danmörku og hef búið víða, m.a.í Brussel, Antwerpen, París, London og á Spáni,“ segir Katla þegar hún er spurð að því hverra manna hún sé. Árið 2012 flutti fjölskyldan til Brussel þar sem hún var búsett í 8 ár og þar lauk Katla stúdentsprófi. „Eftir það fór ég eitt ár í myndlistarnám í París við Paris College of Art (PCA) og þaðan fór ég í nám við Royal Academy of Fine Arts í Antwerpen þar sem ég kláraði þriggja ára Bachelor nám í Contemporary Jewellery Design and gold-and silversmithing (nútímaskartgripahönnun og gull og silfursmíði). Stór hluti þessa náms var mjög skapandi en svo fengum við líka góða kennslu í hefðbundinni tækni,“ segir Katla sem útskrifaðist úr skólanum árið 2019. Aðspurð af hverju hún valdi skartgripagerðina fram yfir myndlistina stendur ekki á svari; „Ég fór eiginlega í þetta nám vegna þess hversu mikið ég elska steina og perlur. Ég átti risa steinasafn sem ég hafði safnað lengi og mig langaði til að geta búið til eitthvað úr þeim, úr efnum sem náttúran gefur,“ segir Katla en viðurkennir að steinasafnið hafi reyndar enn ekki nýst í hönnun hennar en hver veit hvað gerist í framtíðinni. „Ég fékk steinatromlu í jólagjöf einu sinni og fór að slípa á fullu þá, en ég er ekki byrjuð að nota steinana ennþá.“

„Ég kalla þessar myndir núna Allar heimsins konur því María mey hefur þróast yfir í myndir af konum og þeirra klæðnaði og umhverfi frá þeim löndum sem ég hef búið í,“ segir Katla. 

 

„Þessar myndir eru allar gerðar fríhendis og hafa í raun verið mín hugleiðsla. Ég get alveg gleymt mér í þessu og geri stundum tíu myndir í einu.“

Byrjaði 13 ára á Maríumyndum

Katla segist alltaf hafa verið skapandi. Sem krakki teiknaði hún mikið og myndlist var uppáhaldsfagið hennar í skólanum. „Þá var ég líka mikið í kringum mömmu sem var þá að vinna sem textílhönnuður svo kannski hefur það eitthvað smitast yfir.“ Um þrettán ára aldurinn byrjaði Katla að gera Maríu myndir sem hafa fylgt henni allar götur síðar. „Fyrstu myndirnar voru mjög fíngerðar pennamyndir sem tók mig alveg 10 klukkustundir að klára. Síðan hafa þær þróast og ég er farin að gera þær með bleki líka. Það er misjafnt hvað ég geri mikið af þeim á hverju ári en ég hef a.m.k alltaf haldið eitthvað áfram með þær.“ Innblásturinn af Maríu myndunum var upphaflega María mey. „Það voru styttur af henni heima, þó við séum ekkert trúuð. En mér fannst hún bara svo falleg. Svo var hún alltaf í bláum kjól sem var uppáhalds liturinn minn þegar ég var krakki. Ég er í raun alltaf að mála konu, þetta er ekki endilega María mey í dag. Ég kalla þessar myndir núna Allar heimsins konur því María mey hefur þróast yfir í myndir af konum og þeirra klæðnaði og umhverfi frá þeim löndum sem ég hef búið í.“ Katla fann fljótt að fólk tengdi við Maríu myndirnar og byrjaði að selja þær til vinkvenna móður sinnar strax á unglingsaldri. „Þetta fór bara að spyrjast út,“ segir Katla sem hefur haldið þrjár sýningar á Maríu myndunum; samsýningu með Einari Gíslasyni á Brúnir Horse í Eyjafirði árið 2020, í Gleraugnaversluninni Auglit sumarið 2021 og á kaffihúsinu Hérna á Húsavík árið 2022. Auk þess tók hún þátt í samsýningunni Allt árið 2010 vegum Listasafnsins á Akureyri. „Þessar myndir eru allar gerðar fríhendis og hafa í raun verið mín hugleiðsla. Ég get alveg gleymt mér í þessu og geri stundum tíu myndir í einu.“

Á vinnustofunni á Hjalteyri. Gestir eru velkomnir í heimssókn þegar Katla er á svæðinu en þá er skilti fyrir utan húsið sem vísar leiðina.

Stórir og grófir hlutir

En aftur að skartgripunum. Þegar Katla er beðin að lýsa þeim segir hún að áferðir og form séu alltaf sótt í náttúruna. „Ég er alltaf að vinna með form úr náttúrunni, þó það sjáist ekki endilega hvað það nákvæmlega er þá er það samt eitthvað sem við könnumst við. Stíllinn minn eru stórir og grófir hlutir. Ég vil helst hrúga hringunum öllum saman og vera með marga í einu,“ segir Katla og bendir á fingur sínar sem eru alsettir hringum. Katla vinnur mest í silfri en er líka með gullhúðaða gripi. Þá hefur hún einnig verið að vinna með gull, hvítagull og eðalsteina eins og demanta í sérpöntunum. Í tvö ár hefur skartgripasmíðin verið hennar aðalvinna og segir hún gaman hvað skartgripirnir höfða til breiðs aldurshóps en hún gerir hringa, eyrnalokka og hálsmen. Skartgripina hefur hún m.a sýnt á sýningu með Margréti Jónsdóttur leirlistakonu í Kirsuberjatrénu árið 2023 og þá voru gripir hennar hluti af sýningunni Skart:gripur sem haldin var í Hafnarborg og var hluti af HönnunarMars 2024.

„Ég er alltaf að vinna með form úr náttúrunni, þó það sjáist ekki endilega hvað það nákvæmlega er þá er það samt eitthvað sem við könnumst við. Stíllinn minn eru stórir og grófir hlutir. Ég vil helst hrúga hringunum öllum saman og vera með marga í einu.“

 

Hentar vel að vera á flakki

En hvernig sér Katla framtíðina fyrir sér? „Það er fínt að vera hér en mig er alltaf farið að langa aftur út eftir smá tíma á íslandi og væri ekki tilbúin í dag að setjast alveg hér að. Það er svo mikið sem ég á enn eftir að sjá og upplifa. Ég hef verið það mikið á flakki í gegnum árin að ég horfi ekki endilega á Akureyri sem minn heimabæ og veit svo sem ekki hver hann er,“ segir Katla sem fer reglulega út til Madrídar þar sem hún er með vinnuaðstöðu. „Það hentar mér vel að vera á flakki og mér finnst mjög gaman og gott að vera líka með vinnuaðstöðu erlendis. Ég fer stundum mánuð út í einu til að vinna. Ég á tvö sett af áhöldum og get því unnið í Madrid eða hér. Þá á ég vélar hér sem eru ekki þar og svo öfugt. Mér finnst Madrid skemmtileg borg, mikil spænsk menning, fallegar byggingar, gott veður, góður matur og borgin er þægileg.“

Þess má að lokum geta að skartgripi Kötlu má kaupa beint af henni á vinnustofunni á Hjalteyri eða í gegnum heimasíðu hennar katla-studio.com. Þá fást þeir líka í versluninni Nebraska í Reykjavík og í versluninni Katla Nordica í Barcelona. Eins eru þeir væntanlegir í sölu í Kistu í Hofi 2. ágúst. Maríu myndirnar fást á vinnustofunni á Hjalteyri og einnig eru nokkrar til sölu á Eyju Vínstofu. Sjá nánari upplýsingar um listaverk og skartgripi Kötlu á Instagram @heimsinsmariur @katlastudio

Listrænt par. Katla og Vikar Mar deilda vinnustofu á Hjalteyri en þau eru að fást við mjög ólíka hluti.