Fara í efni
Menning

Hver er eiginlega fjórtándi jólasveinninn?

Ólátabelgur og Leppalúði á æfingu í Freyvangi. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Það fer óðum að styttast í aðventuna og komu fyrsta jólasveins til byggða. Eins og við vitum flest, er það hann Stekkjastaur sem ríður á vaðið fyrir hönd bræðra sinna og fer í fyrstu ferðina til þess að gefa börnum landsins lítinn glaðning í skó. Í Freyvangsleikhúsinu eru þessir bræður einmitt um þessar mundir í allsherjar undirbúningi fyrir svolítið öðruvísi verkefni.

 

 

Jóhanna S. Ingólfsdóttir er formaður Freyvangsleikhússins og einnig leikstjóri glænýrrar sýningar um jólasveinana hrekkjóttu og foreldra þeirra. „Fjórtándi jólasveinninn er frumsamið jólaverk eftir Ásgeir Ólafsson Lie,“ segir Jóhanna. „Þetta er saga af hefðbundnu jólasveinunum þrettán, Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Nema í þessu leikverki eru jólasveinarnir ekki bara þrettán heldur er þarna sá fjórtándi sem enginn átti von á.“ Á laugardaginn kemur, þann 23. nóvember, verður frumsýning og miðasala er þegar hafin á tix.is

Ólátabelgur leitar að sínum stað í tilverunni

Fjórtándi jólasveinninn er hugljúf jólasaga sem segir söguna af barni sem kemur óvænt í heiminn og var í raun ekki gert ráð fyrir. Ólátabelgur er frábrugðin öðrum í fjölskyldunni og hefur hvorki hlutverk né tilgang innan fjölskyldunnar. „Það að vera öðruvísi en allir í kringum sig og falla ekki inní hópinn getur verið erfitt,“ segir Jóhanna. „Því þarf Ólátabelgur að hafa fyrir því að finna sinn stað innan fjölskyldunnar. Um það fjallar verkið.“

 

Frá æfingu. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Frumsamin tónlist í lifandi flutningi

„Tildrögin af verkinu eru sú að Ásgeir skrifaði bókina Fjórtándi jólasveinninn sem kom út fyrir jólin 2018 og gerði svo drög af handriti sem hann treysti Freyvangsleikhúsinu fyrir að setja á svið í samvinnu við mig,“ segir Jóhanna, en það má einnig búast við því að heyra glænýja tónlist úr Grýluhelli. „Ég fékk Eirík Bóasson til þess að semja tónlist fyrir verkið og Helgi Þórsson hefur samið frumlega og skemmtilega texta við lögin. Það verður svo fjögurra manna hljómsveit á sviðinu,“ bætir Jóhanna við. 

Það er algjör fjölskyldustemning hérna hjá okkur og æfingarnar hafa gengið ótrúlega vel.

Freyvangsleikhúsið er rótgróið áhugaleikhús, en stór hópur sjálfboðaliða hjálpast að við að koma ævintýrinu um fjórtánda jólasveininn á fjalirnar. Leikararnir eru nítján talsins, og á ansi breiðu aldursbili, 10-74 ára. „Við erum með átta börn á grunnskólaaldri sem eru flest að stíga sín fyrstu skref á leiksviði,“ segir Jóhanna. „Það er svo gaman að fylgjast með börnum og fullorðnum sem þekktust ekki neitt í upphafi æfingaferlisins verða að þéttum hóp. Það er algjör fjölskyldustemning hérna hjá okkur og æfingarnar hafa gengið ótrúlega vel.“

Sýningar af skornum skammti

„Miðasalan fer vel af stað og reiknum við með að fólk þurfi að tryggja sér miða í tíma því þetta verða eingöngu fáar sýningar,“ minnir Jóhanna á. „Fjórtándi jólasveinninn er frábær skemmtun fyrir fólk á öllum aldri og sérstaklega fyrir yngri kynslóðina þar sem hún er einungis klukkutími á lengd með hléi eftir hálftímann,“ segir leikstjórinn hress í bragði að lokum. 

 

Grýla, Ólátabelgur og Leppalúði. Mynd: Freyvangsleikhúsið