Fara í efni
Fréttir

Hver að verða síðastur að fara í berjamó

Inga Vala Birgisdóttir, fer í ber á hverju sumri. Berjatínslan hjá henni byrjaði seinna í ár en oft áður. Þá reiknar hún ekki með því að hún tíni mikið lengur en fram yfir komandi helgi.

Bláberin í kring um Akureyri eru orðin viðkvæm inn á milli og hver að verða síðastur að ná góðum berjum í hús. Þeir sem ætla í berjamó þetta haustið verða því að hafa hraðar hendur.

Þetta segir Inga Vala Birgisdóttir, berjatínslukona á Akureyri en hún fer til berja á hverju ári. „Það er orðið auðvelt að merja berin því þau eru orðin viðkvæm. Um leið og það kemur frost þá verða berin helmingi viðkvæmari. Það er vel hægt að tína þau en þá fara þau bara beint í frysti,“ segir Inga Vala og bætir við að krækiberin þoli meira en bláberin, en sjálf er hún eingöngu í bláberjunum.

 

Léleg berjaspretta í Hlíðarfjalli

Þau ber sem Inga Vala hefur nú þegar náð í hús hafa verið mjög góð en hún hefur tínt öll sín ber í ár niður við sjó í stað þess að halda upp til fjalla eins og oft áður. „Í fyrra tíndi ég öll mín ber í Hlíðarfjalli en þegar ég fór um daginn á mína staði þar sá ég varla neitt af berjum, bara pínulitla grænjaxla og eitt og eitt blátt ber á stangli. Þá fór ég fyrir neðan Blómsturvelli en þar hefur allt verið krökkt af berjum og rosa stór ber inn á milli. Ég hef því tínt öll mín ber þar í ár í stað þess að leita upp til fjalla,“ segir Inga Vala. Hún telur að hretið í júníbyrjun hafi haft sitt að segja hvað berjasprettuna í Hlíðarfjalli varðar. „Ég hef aldrei áður lent í því að sjá ekki ber í Hlíðarfjalli.“

Bestu berin í ár eru niður við sjó að sögn Ingu Völu. Eitthvað hefur verið um birkifeta á berjalyngi í grennd við Akureyri. 

 

Næg berjalönd við Akureyri

Inga Vala segir að í þau 10 ár sem hún hefur tínt og selt ber á Akureyri hafi hún aldrei þurft að leita langt eftir berjum því góð berjalönd eru víða í bæjarlandinu. Nefnir hún til dæmis leiðina upp að Gamla og þá þekkja margir Akureyringar Krossanesborgir. „Ég byrja alltaf að tína hér nálægt Akureyri en ef mig vantar meira þá fer ég kannski í Öxnadal, ég fer aldrei til Dalvíkur eða út í Ólafsfjarðarmúla eins og margir,“ segir Inga Vala sem reiknar með því að hún sé að tína um 80-100 kg af bláberjum þetta sumarið. Síðustu dagar hafa ekki verið girnilegir til berjatínslu en Inga Vala segist hafa þá reglu að hún tíni ekki ef það er kaldara en sjö gráður. Áreynslan við það að bogra yfir lyngið og feta sig um ósléttar þúfur sé meir en nóg þó kuldinn bætist ekki við. „Ég bíð yfirleitt alltaf fram að hádegi því ef það er áfall þá er það að hverfa um það leyti og þá hefur líka yfirleitt hlýnað aðeins.“

Ég vildi ég hefði þessa þrjósku á öðrum sviðum en hún virðist fara öll í berin.

Keppt við frostið

Inga Vala á sína föstu viðskiptavini og segir hún að því fylgi mikil gleði að tína ber handa þeim því margt af þessu fólki getur ekki lengur sjálft farið í ber sökum aldurs eða veikinda. Sjálf ólst hún upp við berjatínslu í æsku en faðir hennar tíndi alltaf mikið af berjum. „Hann vaknaði snemma á morgnana, svona fjögur, fimm. Svo voru bara komnir fullir dallar af berjum klukkan tíu á morgnana heima. Við Halla systir fórum svo að fara með honum og nú fer ég á hverju ári því mér finnst þetta svo gaman. Og mér finnst bara frábært þegar fólk er að nýta sér þessa auðlind,“ segir Inga Vala. Hún viðurkennir að berjatínslan hafi líka eitthvað með keppnisskap að gera, því hún sé alltaf að keppa við frostið, að ná sem mestu í hús áður en það skellur á. „Ég vildi ég hefði þessa þrjósku á öðrum sviðum en hún virðist fara öll í berin,“ segir Inga Vala og hlær.