Fara í efni
Fréttir

Hvalur í ætisleit við Grímsey – MYNDBAND

Mynd: Einar Guðmann

Einar Guðmann birti í morgun á Facebook síðu sinni stutt en magnað myndband af hval í fæðuleit við Grímsey. Hjónin Einar og Gyða Henningsdóttir, sem þekkt eru fyrir nátturulífs- og landslagsmyndir, ferðast mikið um landið allan ársins hring til að safna efni og hafa verið iðin í sumar sem endranær.

„Við notum hvert tækifæri sem gefst til að mynda hvali,“ segir Einar við Akureyri.net. „Það getur verið flókið að finna þá með drónum sem eru með gleiðlinsu og því hefur okkur gengið best að ná myndum þegar þeir sjást skammt frá landi. Þá er hægt að miða út flugstefnu drónans.“

Spennandi að fylgjast með

Einar segir að í sumar hafi verið mikið um hnúfubaka, hnýsur, höfrunga og hrefnur í nágrenni við Grímsey enda greinilega mikið æti við eyjuna. „Það var oft spennandi að fylgjast með þeim, sérstaklega höfrungunum smala síldinni. Fyrst gránaði hafflöturinn og byrjaði að krauma og síðan stukku fiskar í allar áttir til að forða sér frá hvölunum. Það er líka búið að vera töluvert af hval í Eyjafirði og stundum hefur tekist að komast í færi við þá þar. Oft eru þeir hinsvegar langt frá landi og því ekki sjálfgefið að komast í færi.“

Litlu munaði að Einar missti drónann í hafið þegar hann tók með meðfylgjandi myndband. „Það var sæmilegur vindur þegar dróninn fór út í þetta skiptið, vindur frá landi sem er varasamt,“ segir hann. „Reynslan hefur kennt mér að það borgar sig að hafa varann á þegar fljúga þarf í mótvindi til baka. Í þetta skipti var vindurinn mikill, sennilega um 12 metrar á sekúndu þegar lagt var af stað, en ég taldi drónann ráða við aðstæður. Dróninn getur flogið á um 16 metrum á sekúndu þegar aðstæður eru góðar og það gerði hann vissulega þessa 700 metra sem hann flaug að hvalnum í þessu myndbandi.“

Smellið á myndina til að sjá myndbandið

 
Ekkert til að væla yfir ...
 
Einar segir að eftir dágóða stund þar sem hvalurinn velti sér á allar hliðar og lamdi bægslunum í yfirborðið til að leita að síld, „ákvað ég að fara snemma til baka. Við Gyða sátum í bílnum og tókum eftir því að hann var skyndilega farinn að hristast rækilega í vindinum. Vindurinn hafði aukist verulega.“
 
Hraðinn á drónanum var einungis 1 til 2 metrar á sekúndu í mótvindinum, segir Einar. „Batteríið tæmdist hratt í áreynslunni. Það var 50% þegar lagt var af stað til baka en lækkaði hratt. Þessar mínútur sem það tók drónann að skila sér í land voru taugatrekkjandi. Þrátt fyrir að fjarlægðin væri einungis 700 metrar var hann kominn í 10% þegar hann nálgaðist eyjuna og lenti með sírenuvæli. Myndirnar voru hinsvegar ekkert til að væla yfir,“ segir Einar Guðmann.