Hvaða hreyfing er í boði fyrir fullorðna?
Nú er nýtt ár gengið í garð og ansi mörg sem byrja árið á því að setja sér markmið varðandi heilsu og hreyfingu. Það er reyndar augljóst að Akureyringar ætla ekki að láta sitt eftir liggja, þar sem aðsókn í líkamsræktarstöðvar er óvenju góð. Blaðamaður hefur reynt án árangurs að komast í tíma hjá World Class, en hefur möguleika á því að vera nr. 73 í röðinni á biðlista inn í tímann.
Það er auðvitað alltaf í boði að hreyfa sig á eigin vegum, þar eru engir biðlistar. Fjölmargir möguleikar eru í boði þar, en nú er búið að opna í fjallinu, útivistarsvæði bæjarins eru galopin, Skautahöllin er opin frá föstudegi til sunnudags og svo má ekki gleyma sundlaugunum. Svo er náttúrulega hægt að moka snjó.
Skipulögð hreyfing og íþróttir í bænum
Fyrir þau sem vilja taka þátt í skipulagðri hreyfingu, sem er oft skemmtilegra og veitir betra aðhald, hefur Akureyri.net tekið saman lista yfir það sem er í boði. Athugið að listinn er ekki tæmandi, og óskar blaðamaður eftir ábendingum á rakel@akureyri.net ef lesendur vilja benda á eitthvað sem hefur gleymst. ATH - fréttin er marg-uppfærð, enda gleymdi blaðamaður allskonar skemmtilegri hreyfingu.
Líkamsræktarstöðvar bæjarins eru Bjarg, WorldClass Skólastíg og Strandgötu, Norður og svo má nefna líkamsræktarhópinn Training for Warriors sem er starfræktur í KA-heimilinu. Það er biðlisti á byrjendanámskeiðið þeirra í upphafi árs.
Margir hlaupa reglulega úti, einir eða í hópum. Þessi tók þátt í gamlárshlaup UFA á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Íþróttir eru ekki bara fyrir afreksfólk, heldur eru mörg íþróttafélög með eitthvað fyrir fullorðna sem eru byrjendur eða jafnvel tilbúin til þess að rifja upp forna frægð. Hér er listi yfir það sem blaðamanni tókst að finna á vefnum:
Golf - Golf er ekki bara sumaríþrótt. Golfklúbburinn býður upp á golfherma sem eru opnir allt árið. Þar er hægt að spreyta sig á golfvöllum um allan heim, rafrænt. Meiri upplýsingar á www.gagolf.is
Hjólreiðar - Hjólreiðafélag Akureyrar býður upp á árgjald, þar sem innifalið er meðal annars afsláttur af námskeiðum og fleira. Þar er eflaust hægt að fá góð ráð fyrir þau sem hugsa sér að taka hjólið föstum tökum í ár. Svo þurfa hjólreiðar ekki bara að vera iðkaðar til hreyfingar og sem áhugamál, það er alltaf að færast í aukana að bæjarbúar velji hjólið sem fararskjóta innanbæjar, og hægt að fá nagladekk á flest hjól. Þannig slærðu tvær flugur í einu höggi, að komast á milli staða og hreyfa þig í ferska loftinu. Heimasíða Hjólreiðafélags Akureyrar.
Skíði - Hlíðarfjall er loksins opið og þá er hægt að skella sér á skíði, snjóbretti eða gönguskíði. Fyrir þau sem vilja læra meira eða eru byrjendur er hægt að fá kennslu hjá Skíðaskólanum.
Fimleikar - Fimleikafélag Akureyrar býður upp á fimleika fyrir fullorðna í fimleikahúsinu við Giljaskóla. Heimasíða Fimleikafélagsins.
Pílukast - Píludeild Þórs er með aðstöðu í íþróttahúsinu við Laugargötu. Það er hægt að gerast meðlimur og þá eru æfingatímar á mánudags og miðvikudagskvöldum á milli 19.30-22.00. Einnig eru í boði æfingar fyrir 10-16 ára. Heimasíða Píludeildar.
Taekwondo - Þór býður upp á æfingar í Taekwondo, en æfingahóparnir skiptast í tvennt, þau sem eru eldri en 10 ára og þau sem eru yngri. Æft er í íþróttahúsi Oddeyrarskóla. Heimasíða Taekwondo hjá Þór.
Brazilian Jiu Jitsu - Atlantic Jiu Jitsu er með æfingaaðstöðu við Tryggvabraut 22, á þriðju hæð. Þar er vel tekið á móti byrjendum og reglulega boðið upp á grunnnámskeið og framhaldsnámskeið. Meira á heimasíðu Atlantic.
Blak - Blakdeild KA stendur fyrir blaki fyrir öldungahópa bæði karla og kvenna. Auk þess eru byrjendanámskeið tvisvar í viku. Heimasíða Blakdeildar KA
Karate - Karatefélag Akureyrar býður upp á að prófa án endurgjalds og er einnig reglulega með byrjendanámskeið. Best er að fylgjast með facebook síðu félagsins. Facebook síða Karatefélags Akureyrar.
Kraftlyftingar - Kraftlyftingafélag Akureyrar er með flotta aðstöðu á Hjalteyri, þar sem félagið æfir. Facebook síða KFA. Einnig er KA með lyftingaæfingar, þar er aðstaða til kraftlyftinga- og ólympískra lyftinga, auk þess er boðið upp á regluleg námskeið fyrir börn og fullorðna. Einnig geta fullorðnir nýtt sér aðstöðuna. Frekari upplýsingar er að finna á Facebook síðu Lyftingadeildar KA.
Skautar - Skautafélag Akureyrar sér um að hafa opið í Skautahöllinni, þar sem er opið 13-16 föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Auk þess er Skautadiskó á föstudagskvöldum frá 19-21. Einnig er hægt að prófa að æfa krullu, en á heimasíðunni kemur fram að það kosti ekkert að koma að prófa. Meiri upplýsingar eru á heimasíðu Skautafélagsins.
Skautahlaup - Skautafélag Akureyrar er með skautahlaupsdeild sem æfir ýmist inni í Skautahöll eða utandyra. Nánari upplýsingar eru á Facebook síðu deildarinnar.
Sund - Sundfélagið Óðinn heldur utan um sundæfingar á Akureyri. Eitthvað hefur verið boðið upp á sundæfingar fyrir fullorðna, sem ekki hafa hugsað sér að ná keppnisfærni í lauginni, en leita frekar eftir góðri hreyfingu sér til heilsubótar. Nýverið auglýsti félagið t.d. skriðsundsnámskeið fyrir 16 ára og eldri sem vilja bæta tæknina sína. Best er líklega að fylgjast með Facebook síðu Óðins.
Sjósund - Hópur hreystimenna hefur tekið sig saman og skellir sér reglulega í sjósund við aðstöðuhús Nökkva. Hér er linkur á facebook hópinn, fyrir áhugasöm. Eins og staðan er núna þarf sennilega að saga sér vök fyrst, en það er eflaust lítið mál.
Frjálsar - Ungmennafélag Akureyrar, UFA, sér um frjálsíþróttaæfingar. Á heimasíðunni má sjá að það er til hópur sem heitir UFA 30+, sem æfir í Boganum tvisvar í viku. Einnig er hinn öflugi hlaupahópur Eyrarskokk hjá félaginu, en það er fjölmennur félagsskapur sem æfir útihlaup allt árið um kring. Heimasíða UFA og Eyrarskokks.
Klifur - 600 Klifur er fjölskyldufyrirtæki sem hefur starfrækt klifurvegg fyrir alla fjölskylduna á Hjalteyri, en hafa lokað þar og stefna að opnun á nýrri aðstöðu á Akureyri á næstu misserum. Kraftlyftingafélagið tók við rekstri klifurveggsins á Hjalteyri og er með skipulagðar æfingar þar og opið fyrir almenning. Áhugasöm um klifurvegginn á Akureyri og framvinduna þar geta fylgst með á facebook síðu 600 Klifur.
Braggaparkið - Braggaparkið er innanhússaðstaða á Akureyri fyrir hjólabretti, línuskauta, hlaupahjól og BMX-hjól. Fyrir fullorðna er hægt að fá einkakennslu, sem er pöntuð á heimasíðunni. Einnig er hópur af fullorðnum sem vilja prófa eða rifja upp brettakunnáttuna að hittast á miðvikudagskvöldum kl 20.00. Allar upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu Braggaparksins.
Dans - Á Akureyri eru tvö dansfélög, Dansskóli Steps og Dansstúdíó Alice. Bæði bjóða upp á dans fyrir eldri iðkendur, en hjá DSA er hópur sem kallast DSA heilsa sem býður upp á fjölbreytta tíma í dansi og hreyfingu. Steps er með æfingu fyrir 22+ ára á þriðjudagskvöldum sem heitir Dívur. Heimasíða Steps. Heimasíða DSA.
Einnig er hægt að liðka sig í mjaðmasvæðinu með því að skella sér á Salsa námskeið. Salsa North býður upp á námskeið og einnig hafa þau haldið salsakvöld á Vamos sem hafa mælst vel fyrir.
Pole fitness - Phoenix pole studio er starfrækt í Freyjunesi og þar eru í boði námskeið í þessari krefjandi íþrótt. Þar lærir þú að sveifla þér á súlu sem æfir mikinn styrk og jafnvægi. Facebook síða Phoenix.
Sjálfsrækt - Vert er að minnast á Sjálfsrækt, sem er til húsa neðst í Brekkugötu. Þar eru í boði ýmis námskeið í jóga, mobility og fleira. Heimasíða Sjálfsræktar.
Opnir íþróttatímar í Hrísey - Ungmennafélagið Narfi er með opna tíma fyrir fullorðna á sunnudögum í Íþróttahúsinu í Hrísey frá kl. 13. Það er farið í badminton, ringó, bandý, fótbolta, skotbolta og bara það sem hópnum dettur í hug hverju sinni. Það er engin skráning og ekkert gjald.
Eins og áður sagði, þarf þessi listi ekki að vera tæmandi og tökum við glöð við ábendingum um fleiri íþróttir eða hreyfingu sem eru í boði á svæðinu. Ábendingar berist á netfangið rakel@akureyri.net