Fara í efni
Mannlíf

Hvaða hreyfing er í boði á Akureyri fyrir 60+?

Ringó er nýjasta æðið, en félag eldri borgara stendur fyrir æfingum vikulega. Mynd: Akureyri.is

Í vikunni birtum við grein um hreyfingu sem er í boði fyrir fullorðna í bænum, sem vakti mikla athygli og fór víða. Blaðamaður fékk í kjölfarið nokkrar ábendingar um skipulagða hreyfingu sem gleymdist í upptalningunni og bætti samviskusamlega við. Þónokkur erindi bárust varðandi hreyfingu fyrir bæjarbúa sem eru 60 ára eða eldri. Hér birtist því samantekt á því sem er í boði sérstaklega fyrir þennan aldurshóp, þó að auðvitað sé margt á hinum listanum sem ætti líka við. 

Gleymum svo ekki að hreyfing á eigin vegum er alltaf í boði, en sundlaugarnar eru vinsælar, útivistarsvæði bæjarins, t.d. gönguskíðabrautin í Kjarnaskógi sem er troðin á hverjum degi og jafnvel hjólreiðar ef fólk er með nagladekk á fákinum. 

Gönguhópar - Listinn af hópum sem hittast til þess að ganga er eflaust ekki tæmandi, og velkomið að senda ábendingu ef við gleymum einhverjum.

  • Tökum skrefið - Ferðafélag Akureyrar er með gönguferðir á sunnudagsmorgnum kl 10.00 sem hefja göngu sína eftir jólafrí 19.janúar. Hér er linkur á heimasíðuna.
  • Félag eldri borgara er með gönguhóp sem fer aftur af stað í febrúar, gott væri að fylgjast með Facebook síðunni
  • Club 1010 er gönguhópur sem byrjaði að fara saman í göngu o.fl. þegar þau kynntust á Bjargi. Samkvæmt Facebook, getur blaðamaður ekki betur séð en að hópurinn sé opinn fyrir áhugasöm og hér er linkur á Facebook hópinn.
  • Boginn - Það er frjáls göngutími inni í Boga fyrir hádegi á virkum dögum fyrir þau sem vilja. Það getur verið kærkomið í kuldatíðinni. 

Ringó - Tískuíþrótt í hópi eldri garpa er svokallað Ringó. Hér er frétt af fyrsta Ringó-mótinu sem haldið var á Akureyri. Félag eldri borgara hefur verið að skipuleggja tíma í íþróttahúsi Síðuskóla, sem eru vel sóttir. Best er að fylgjast með Facebook síðu EBAK.

Virk efri ár - Akureyrarbær býður upp á skipulagða heilsueflingu fyrir 60+, sem nefnist 'Virk efri ár'. Margt og misjafnt er á dagskrá, t.d. blak, styrktaræfingar, borðtennis, dans, boccia, pokavarp (e. Cornhole), jóga, leikir, badminton, frisbígolf (folf) innandyra, pílukast, gönguferðir og sundleikfimi. Hér er Facebook síða verkefnisins. Þar segir að dagskrá fyrir vorið sé væntanleg í vikunni.

Leikfimi - Bjarg býður upp á leikfimi fyrir 60+, sem er skipt í þrjá hópa, einn kl 9:10 annan 10:10 og sá þriðji 11:10, kennt er á mán, mið og fös. Heimasíða Bjargs

Birta og Salka - Í félagsmiðstöðvum fólksins, Birtu og Sölku, er í boði snóker/pool, boccia og leikfimi. Hér er Facebook síða félagsmiðstöðvanna, þar sem auðvelt er að finna dagskrá. 

Janus heilsuefling - Skipulögð þjálfun fyrir 65 ára og eldri. Heimasíða Janus.
Hér er viðtal sem Akureyri.net tók á síðasta ári um Janus Heilsueflingu. 

 

Ábendingar um hreyfingu eða möguleika til hreyfingar sem vantar á þennan lista má senda á rakel@akureyri.net