Fara í efni
Mannlíf

Hvaða bleika fígúra er flottust í Goblin?

Markmið málningarkeppni Goblin er að styrkja Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og um leið vekja athygli á módelmálun sem áhugamáli.

Verslunin Goblin stóð fyrir málningarkeppni á hobbýmódelum og minni fígúrum í október. Þema keppninnar var Bleikur október og urðu þátttakendur að hafa bleikan sem aðallit módelsins.  Alls komu inn 11 módel í keppnina og nú stendur yfir kosning á flottustu fígúrunni.  

Samkvæmt upplýsingum frá eigendum Goblin er þetta í fyrsta sinn sem slík keppni er haldin hjá þeim en með henni vildu þau annars vegar leggja Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis lið, en til þess að kjósa sitt uppáhaldsmódel þarf að styrkja félagið með framlagi að lágmarki 500 kr. Hins vegar var markmið keppninnar að vekja athygli á módelmálun sem áhugamáli. Fólk á ýmsum aldri stundar módelmálun, unglingar og upp í fullorðna, og segja eigendur Goblin að módelin sem taki þátt hafi líklega flest verið máluð heima hjá þátttakendum, en fólk kemur þó stundum í Goblin til þess að mála. 

Kjörseðill fyrir framlag til Krabbameinsfélagsins

Eingöngu er hægt að kjósa sitt uppáhaldsmódel í verslun Goblin á Glerártorgi en þar er hægt að skoða öll módelin í sýningarskáp í versluninni. Eins eru myndir af öllum módelunum sem taka þátt með þessari grein. Með því að greiða framlag til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis er viðkomandi afhentur kjörseðill sem settur er í kjörkassa. Sami einstaklingur má kjósa eins oft og hann vill en eina reglan er að  fyrir hvern kjörseðil þarf að greiða að lágmarki 500 kr. framlag til Krabbameinsfélagsins.

Kosningin stendur til 15. nóvember og verður sigurvegari tilkynntur laugardaginn 16. nóvember en verðlaunin eru inneign í Goblin. 

ágágha´gha´g