Hvað kostar kaffibollinn á Akureyri?
Kaffið sem í boði er á kaffihúsum bæjarins er jafn ólíkt og kaffihúsin eru mörg. Verðlagið er líka eftir því. Akureyri.net kannaði verð á svörtu kaffi á 19 stöðum á Akureyri.
Alltaf ábót á uppáhellingu
Í öllum tilvikum er uppáhellt kaffi ódýrasti kosturinn á kaffihúsum, enda er líka alltaf ábót innifalinn í verðinu, svo kaffibollinn dugar lengi. Uppáhellingur er hins vegar ekki alls staðar í boði heldur americano en bollinn af americano er alltaf aðeins dýrari en af uppáhelltu. Frávik frá þessari reglu er Kaffi Ilmur en þar er enginn verðmunur á uppáhelltu kaffi og americano.
Í miðbænum er ódýrast að drekka uppáhellt kaffi á Backpackers. Þar er bollinn á 400 krónur og fylgir ábót með.
Ódýrasta kaffið í miðbænum á Backpackers
Ódýrasti kaffibollinn á kaffihúsum í miðbænum er hjá Backpackers en þar kostar bollinn eða réttara sagt kannan 400 krónur. Næst ódýrasti uppáhellingurinn í miðbænum er hjá Kristjánsbakarí en þar er verðið 475 krónur. Dýrasti uppáhellingurinn er hins vegar hjá Bláu könnunni en þar kostar bollinn 630 krónur.
Gott verð í bakaríunum
Ef farið er lengra frá miðbænum þá er hægt að fá uppáhellt kaffi á 450 krónur bæði í Axelsbakarí á Eyrinni og hjá Brauðgerðarhúsi Akureyrar í þorpinu. Bakaríið við brúna fylgir fast á eftir en þar er verðið 460 krónur. Öllu dýrari verður uppáhellingurinn á Glerártorgi en þar er verðið 690 krónur hjá Maikai (áður Skyr600). Samkvæmt þessari könnun þá er það dýrasti uppáhellingur bæjarins.
Langódýrasti kaffisopinn í bænum er í Axelsbakarí, 300 krónur fyrir uppáhellt kaffi. Dýrasta uppáhelling bæjarins er á Glerártorgi á 690 krónur hjá Makai.
Americano ódýrastur á Centrum
Eins og áður segir þá bjóða ekki öll kaffihús upp á uppáhelling en americano er það sem næst kemst hefðbundnum kaffibolla af síukaffi. Munurinn er hins vegar sá að americano er gerður í espressóvél og þá er espressóskoti blandað saman við heitt vatn. Þessi kostur er vinsæll hjá þeim sem ekki vilja hefðbundið filterkaffi en finnst espressó of sterkur. Ef rýnt er í verðið á americano í miðbænum þá er ódýrasta bollann að finna hjá Centrum en þar kostar hann 470 krónur. Þar á eftir koma Kaffi Ilmur og Vamos en þar er bollinn á 550 krónur. Langdýrasti americano bollinn er hjá Móa í Hofi en þar kostar hann 750 krónur.
Ath: Hér er aðeins rýnt í flatt verð á kaffibollanum á 19 stöðum á Akureyri. Hægt er að kaupa kaffi á fleiri stöðum í bænum eins og t.d. á bensínstöðvum og veitingahúsum. Hvorki var spáð í gæði né magn í bollunum. Samanburðurinn er því ekki endilega sanngjarn.
Verð á kaffi á 19 stöðum á Akureyri
- Backpackers 400 kr. uppáhellt, 600 kr. americano
- Brauðgerðarhús Akureyrar 450 kr. uppáhellt, 530 kr. americano
- Axelsbakarí 450 kr. uppáhellt, 590 kr. americano
- Bakaríið við brúna 460 kr. uppáhellt, 660 kr. americano
- Centrum 470 kr. americano
- Kristjánsbakarí 475 kr. uppáhellt, 705 kr. americano
- Flugkaffi, Akureyrarflugvelli 490 kr. uppáhellt
- Kaffi Ilmur 550 kr. sama hvort um er að ræða uppáhellt eða americano
- Vamos 550 kr. americano
- Eymundsson 570 kr. uppáhellt, 650 kr. americano
- Berlín 550 kr. uppáhellt, 690 kr americano
- Bláa kannan 630 kr. uppáhellt, 730 kr. americano
- Sykurverk 580 kr. uppáhellt, 650 kr. americano
- Ketilkaffi 590 kr. uppáhellt, 680 kr. americano
- Kaffi Lyst 600 kr. uppáhellt, 700 kr. americano
- Mói í Hofi 650 kr. uppáhellt, 750 kr. americano
- Makai Glerártorgi 690 kr. uppáhellt
- Múlaberg 690 kr. americano
- Berjaya hotel 700 kr. americano
Kaffispeki í Eymundsson.