Fara í efni
Mannlíf

Hvað eru jólin án tónlistar?

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri 

1. desemberDagur íslenskrar tónlistar. Hvað eru jólin án tónlistar?

Tónlist er stór hluti jólahalds. Hljómplatan Heims um ból kom út árið 1970 og var önnur stóra platan sem Pálmi Stefánsson gaf út undir merkjum Tónaútgáfunnar, sem stóð fyrir blómlegri útgáfu um áratugaskeið.

Á A-hlið plötunnar flytur Kirkjukór Akureyrar klassíska jólasálma undir dyggri stjórn organistans Jakobs Tryggvasonar, sem starfaði sem slíkur í Akureyrarkirkju í 45 ár.

Á B-hliðinni flytur Hljómsveit Ingimars Eydal nokkur þekkt jólalög og eitt sem er alls ekki þekkt sem slíkt. Flest hafa lögin unnið sér fastan sess í jólastemningunni en með öðrum textum en þeim sem Helena Eyjólfsdóttir og Þorvaldur Halldórsson syngja hér. Sólin er kærkomin ekki síst í skammdeginu og um hana yrkir Kristján frá Djúpalæk textann um Jólasól. Lagið er þó þekktara með texta Lofts Guðmundssonar, Klukknahljóm. Eftirvæntingin er yrkisefni Birgis Marinóssonar í laginu Jólasveinninn, sem Ólafur Gaukur samdi við textann Hátíð í bæ. Þekktasta lagið á plötunni er án efa lagið Horfðu sem flestir þekkja þó sem Yesterday eftir þá fóstbræður Lennon og McCartney.

Stór hluti á útgáfu hljómplatna var hönnun á plötuumslaginu sem er sérstaklega vel heppnað hér og er eftir auglýsingateiknarann Kristján Kristjánsson.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Jakob Tryggvason við orgel Akureyrarkirkju þegar hann lék í síðasta skipti við messu, árið 1986. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Hljómsveit Ingimars Eydal árið 1970. Finnur Eydal, Helena Eyjólfsdóttir, Hjalti Hjaltason, Ingimar Eydal, Þorvaldur Halldórsson og Bjarki Tryggvason. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.