Fara í efni
Menning

Hvað er það við þessa fossa?

Svavar Alfreð Jónsson, sjúkrahúsprestur á SAk, ljósmyndari og höfundur. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Það er margt við fossagöngur sem er heilandi og gott fyrir okkur,“ segir Svavar Alfreð Jónsson, prestur og höfundur bókarinnar „Gljúfrabúar og giljadísir“ sem kom út árið 2020. „Það er í fyrsta lagi gangan að fossinum. Oft þarf að fara niður í gil, ganga þá annað hvort meðfram eða ofan í. Svo ferðu að heyra niðinn í fossinum og þá myndast eftirvænting og spenna. Svo þegar þú ert komin að fossinum þá höfðar hann til svo margra skynfæra. Þú heyrir í honum, hann er sjónarspil og svo jafnvel finnur þú úðann frá honum á andlitinu.“
_ _ _

  • Á sunnudögum í sumar mun Akureyri.net kynna einn foss úr bókinni og ræddi við Svavar af því tilefni. 
  • Við kynnum fossana með það fyrir augum að lesendur fái jafnvel hugmyndir að útiveru og fossaheimsóknum í nærumhverfinu. 
  • Fjörðurinn okkar hefur upp á svo margt að bjóða og það þarf ekki alltaf að sækja vatnið yfir lækinn, eða fossinn yfir lækinn! 

Bókin sem Svavar gaf út með ljósmyndum og texta. Bókaútgáfan Hólar sá um útgáfuna og bókin kom út árið 2020.


„Mér finnst ofboðslega gott að hugsa í svona göngum,“ segir Svavar. „Það er kyrrð, en samt eru allskonar hljóð. Fuglasöngur, vindur, vatn og fleira. Umhverfið hvetur mig til þess að tala við sjálfan mig og brjóta heilann, ekki um þessi daglegu viðfangsefni eins og hvað maður ætli að borða í kvöld, heldur dýpri hugsanir.“ Svavar bendir á að við megum þakka fyrir þessi lífsgæði, að geta komist á svona staði með auðveldum hætti.

Svo er gaman að sjá, hvað það er yfirleitt mikið líf í kring um fossa. Það er oftast grænna í kring um þá, mikill mosi og mér finnst oft vera mikið fuglalíf

„Svo getur þú náttúrulega drukkið vatnið úr fossinum,“ bætir Svavar við, en hann mælir með því að leyfa sér að drekka vatnið, koma nógu nálægt til þess að finna fyrir úðanum og skynja fossinn þannig með öllum mögulegum hætti. „Þetta er svo gott og róandi fyrir hugann. Svo er gaman að sjá, hvað það er yfirleitt mikið líf í kring um fossa. Það er oftast grænna í kring um þá, mikill mosi og mér finnst oft vera mikið fuglalíf.“ 

Bókina gaf Svavar út hjá Bókaútgáfunni Hólum árið 2020. Hún er einföld í uppsetningu, en á hverri opnu er mynd af fossi sem Svavar hefur tekið og á síðunni við hliðina er svo nafnið á fossinum og stuttur texti um hann, bæði á íslensku og ensku. „Ég var búinn að vera duglegur að fara í gönguferðir með vini mínum, Gísla Gunnlaugssyni, en við vorum báðir að koma upp úr erfiðum tíma. Hann hafði misst konuna sína og ég hafði farið í opna hjartaaðgerð,“ segir Svavar. „Við notuðum þessar gönguferðir til heilsubótar bæði líkamlega og andlega. Einhverra hluta vegna fórum við að sækja í það að labba upp að fossum. Þá fékk ég þessa hugmynd, að fara að taka myndir af fossunum.“


Á hverri opnu er mynd af fossi og texti með. 

Svavar hafði haft mikinn áhuga á ljósmyndun þegar hann var í menntaskóla, en áhuginn hafði legið í dvala þangað til í þessum göngutúrum að fossum. „Ég ákvað það þarna, að ég ætlaði að fara að dusta rykið af myndavélinni og taka myndir af þessum fossum,“ segir Svavar. Þegar hann varð fimmtugur tók hann myndirnar saman og hélt ljósmyndasýningu í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. „Þar sýndi ég fimmtíu eyfirska fossa og sýningin mæltist vel fyrir, þannig að ég sýndi myndirnar líka í Bergi á Dalvík. Síðan atvikaðist það þannig að hún fór líka upp í Kópavogi og seinna í Þýskalandi, þannig að óhætt er að segja að eyfirsku fossarnir hafi gerst víðförlir.“

Þegar myndirnar voru til sýnis í Kópavogi, sá bókaútgefandi frá Hólum að þarna væri mögulega efni í bók. „Ég var svosem búinn að hugsa mér það, að þetta væri kannski skemmtilegt bókarefni,“ segir Svavar. „Við ákváðum að hafa hana tvítyngda svo það drógst aðeins á langinn að gefa hana út, en það hafðist og ég er mjög ánægður með hana.“


Samspil myndar og texta hefur verið Svavari hugleikið, en myndirnar eru gjarnan teknar á tíma, þannig að mýkt vatnsins nýtur sín vel í mótvægi við hrjóstrugt landslag íslenskra fjallshlíða og gilbarma. 

Textarnir sem fylgja fossunum eru frá Svavari sjálfum, en hann hefur mjög gaman af því að skrifa. „Þetta er ekki náttúrufræðilegur texti eða nein landafræði,“ segir Svavar. „Þetta er frekar skrifað frá sjónarhóli náttúruskoðarans og náttúruaðdáandans heldur en náttúrufræðingsins. Það er sjálfsagt einhver fróðleikur samt, sögur og annað, en til dæmis þá voru fæstir af þessum fossum með nöfn. Ég gaf þeim bara nöfn í bókinni. Sumir heita sínu rétta nafni og aðrir ekki. Ég reyndi að finna nöfnin en það gekk ekki alltaf.“

Svavar hefur ekki sagt sitt síðasta í bókaútgáfu, en hann gefur upp að nú sé í vinnslu ný bók. „Þetta er ekki fullmótað verkefni, en svo gott sem,“ segir hann íbygginn. „Ég hef ofboðslega gaman af þessu, að vinna texta og myndir og tengja það saman. Þetta verkefni er svipað og fossabókin, bara með öðru viðfangsefni.“

    • Ef einhver vill nálgast eintak af bókinni, er hún fáanleg í vefverslun Forlagsins, hérna.