Hvað er guð annað en það góða í manninum?
„Seint á ævi föður míns frétti ég að hann hefði velt fyrir sér sem ungur maður að nema guðfræði við Háskóla Íslands. Ég varð mjög hissa. Það var að vísu hann sem kenndi mér faðirvorið á sínum tíma. En þegar ég var tíu, tólf ára upplýsti hann við matarborðið eitt kvöldið – að hann tryði ekki á guð.“
Þetta segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Lands og skóga og fyrrverandi útvarpsmaður í fallegum og umhugsunarverðum jólapistli sem Akureyri.net birtir í dag.
„Fyrir mig var þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti. Áfall. En þá tók efinn að búa um sig í mér. Sá efi varð til þess að ég fermdist ekki. Ákvað samt fermingarveturinn að ganga til prestsins, eins og það var kallað þá, fór í fermingarfræðsluna eins og það heitir núna. Hjá séra Pétri, sem kallaði mig alltaf nafna sinn,“ segir Pétur.
„En pabbi sagði líka – þarna í sama skipti og hann tilkynnti um trúleysi sitt við kvöldmatarborðið – að hann tryði á það góða í manninum. Það tengdi ég ekki strax við guð. En hvað er guð annað en það góða í manninum? Ekki karl með skegg í hvítum kufli uppi í himninum sem ákveður allt fyrir okkur á himni og jörð. Er guðsótti það að óttast að hið góða yfirgefi mann?“
Pétur segir: „Ef við erum góð, getum við sagt að guð sé að verki. Og er ekki það góða í manninum aflið sem við viljum að stjórni í heiminum? Af daglegum tíðindum gætum við ráðið um þessar mundir, að hið illa stjórni heiminum. En þá megum við ekki gleyma öllu því, sem hið góða í manninum fær áorkað. Og við megum ekki missa trúna á að hið góða sigri allt á endanum. Við verðum að trúa á hið góða. “
Pistill Péturs Halldórssonar: Hið góða