Fara í efni
Fréttir

Hvað er að gerast á Akureyri?

Nýja skiltið í miðbæ Akureyrar er bæði á ensku og íslensku og á að hjálpa fólki að finna alla þá viðburði sem boðið er upp á í bænum.

Stórt og áberandi skilti hefur verið sett upp í göngugötunni á Akureyri. Skiltið á að auðvelda ferðalöngum og heimafólki að nálgast upplýsingar um alla þá viðburði sem eru í gangi í bænum. Skiltið er bæði á ensku og íslensku og á því er QR kóði sem vísar fólki beint inn á viðburðardagatal Akureyrarbæjar.

Ókeypis auglýsingar fyrir viðburðahaldara

Að sögn Maríu H. Tryggvadóttur, verkefnastjóra ferðamála hjá Akureyrarbæ, var markmiðið með skiltinu að vekja athygli á viðburðadagatalinu sem er að finna á heimasíðunni halloakureyri.is, það er viðamikið og kynnir flest allt sem er í boði í bænum. Bendir hún viðburðahöldurum í bænum, sama hvort sem um er að ræða menningu, útivist, listir, íþróttir eða annað, að hægt sé að senda inn tilkynningar um viðburði í gegnum heimasíðuna halloakureyri.is og eru tilkynningarnar birtar í viðburðardagatalinu viðburðarhöldurum að kostnaðarlausu. Athuga skal þó að starfsfólk Akureyrarbæjar áskilur sér rétt til að meta hvort viðburðir eigi erindi inn í viðburðardagatalið eða ekki, en markmiðið er að birta þar upplýsinga um viðburði sem erindi eiga við sem flesta bæjarbúa og ferðafólk almennt.