Húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri: hálfnað verk
Um langt skeið hefur legið fyrir ákvörðun ríkisvaldsins, sem tekin var í kjölfar ítarlegrar úttektar, að taka í notkun tvær nýjar heilsugæslur á Akureyri. Önnur þeirra var formlega opnuð í fyrradag sem skiljanlega var ákaflega gleðilegt, enda heilsugæslan á Akureyri verið í slæmu húsnæði allt of lengi.
Heilbrigðisráðherra mætti í opnunina og ávarpaði gesti að því tilefni og sagði m.a. „...og ég ætlaði nefnilega einmitt að koma hingað og segja bíddu þessi er svo rosalega flott, er þetta ekki bara komið gott? En við látum reyna á það..“ Brosið hvarf af vörum mér við þessi orð hans. Í kvöldfréttum RÚV sagði ráðherra síðan að þrátt fyrir þessi orð þá hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti og að rýna þurfi í það hvernig þessi stöð nýtist. Það gefur hins vegar auga leið að það var aldrei planið að þetta húsnæði myndi standa undir allri þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri, enda hefði það orðið allt öðruvísi og stærra ef svo hefði verið. Í húsnæðinu er t.a.m. ekki rými fyrir heimahjúkrun og geðheilbrigðisteymi, auk þess sem yfir 20 þúsund eru skráð hjá þessari heilsugæslu sem er langt umfram þann fjölda sem gert var ráð fyrir þegar húsnæðið var byggt. Það er óhætt að segja að fjölmargir séu orðnir langþreyttir á bágri stöðu heilsugæslunnar á Akureyri, enda á hún að veita mikilvæga grunnþjónustu í okkar samfélagi. Það ætti ekki að ríkja óvissa um framhaldið, það ætti ekki að vera eitthvað hik á ráðherra að klára þá vegferð sem lagt var af stað í. Þannig að svarið við spurningu ráðherra er einföld: Nei þetta er ekki bara komið gott, verkefnið er hálfnað og verkefnið þarf að klára.
Hilda Jana Gísladóttir er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri og varaþingmaður