Fara í efni
Fréttir

Húsnæði ÁTVR við Hólabraut verður selt

ÁTVR hyggst selja húsnæðið við Hólabraut sem áður hýsti Vínbúð í miðbæ Akureyrar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrrum húsnæði ÁTVR á Akureyri í miðbæ Akureyrar hefur staðið tómt síðan Vínbúðin var flutt á Norðurtorg í byrjun mars, en verður svo líklega ekki til lengdar.

Eins og Akureyri.net hefur sagt frá hafa verið skiptar skoðanir um flutning Vínbúðarinnar á Norðurtorg en margir bæjarbúar eru hins vegar forvitnir um hvaða starfsemi muni koma í húsnæðið sem áður hýsti Vínbúðina við Hólabraut.

Akureyri.net leitaði svara hjá Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, varðandi hvað verður um húsnæðið við Hólabraut og fékk þau svör að húsnæðið sem er í eigu ÁTVR verður selt. Húsnæðið, sem hýsti Vínbúðina í tæp 64 ár, er í heildina 800 fm að stærð og getur því verið áhugavert tækifæri fyrir framtakssamt fólk.