Fara í efni
Mannlíf

Hundrað þúsund steinar – mismunandi gráir

Þessi mynd var tekin í september 2024 þegar umferð hafði aftur verið hleypt á götuna eftir sumarlokun. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Um 170 metra kafli Hafnarstrætis, frá Kaupvangsstræti í suðri að Ráðhústorgi er oft nefndur Göngugatan og má segja að spotti Ráðhústorgs frá Hafnarstræti að Skipagötu sé hluti hennar. Lengst af má segja að hugtakið göngugata hafi verið rangnefni, mögulega alla tíð ef málin eru skoðuð ofan í kjölinn, þó það sé iðulega notað um þetta svæði. Höfundur kýs reyndar að skrifa heitið með stórum staf og líta svo á að það hafi í gegnum tíðina orðið að sérnafni.

Akureyri.net birti á dögunum fréttina „Göngugatan“ þolir vart meiri bílaumferð vegna skemmda. Af því tilefni birtist í dag fyrsti hluti lauslegrar upprifjunar á sögu þessa hluta Hafnarstrætis sem Göngugötunnar.

  • Á MORGUN „ÖKUMENN MISNOTA VÖRULOSUNARRÉTTINN“
  • Á ÞRIÐJUDAG UMFERÐ HLEYPT Á – HÖNNUÐ FYRIR GANGANDI

Hvenær hófst þessi saga, göngugata eða ekki göngugata? Tíðindamaður akureyri.net fletti í gömlum dagblöðum á timarit.is og leitaði uppi umfjöllun um göngugötu ... eða ekki göngugötu. Hér verður ekki kafað djúpt í sagnfræðina heldur aðeins rifjuð upp helstu atriði, dagsetningar og ártöl. 


Úrklippa úr Morgunblaðinu 18. maí 1982, bls. 47. „Ákveðið hefur verið að breyta Hafnarstræti á Akureyri ásamt Ráðhústorgi í göngugötu og efna til nýs torgsvæðis sunnan Búnaðarbankahússins,“ segir í inngangi fréttarinnar.

Hnignandi miðbær, skipulag frá 1926

Fram til ársins 1981, þegar samþykkt var nýtt skipulag fyrir miðbæinn, var í gildi skipulag sem gert var 1926. Finnur Birgisson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, sagði í viðtali í Akureyrarblaði DV 13. nóvember 1982 þar sem rætt var um miðbæjarsvæðið, að sagt hafi verið að miðbærinn hafi verið á niðurleið á undanförnum árum og áratugum. „Það getur hafa stafað af því, að ekki hefur verið til nothæft skipulag til að fara eftir. Nú strandar ekki lengur á því,“ sagði Finnur í samtali við DV. Þremur árum áður hófst undirbúningur að þeim breytingum sem koma skyldu.

Nýtt skipulag miðbæjarsvæðisins var til umfjöllunar í Akureyrarblaði DV 13. nóvember 1982 þar sem farið var yfir helstu breytingar sem fylgdu nýja skipulaginu, rætt við Finn Birgisson skipulagsstjóra og vegfarendur spurðir álits. 

1979 - Hönnunarvinnan hófst

  • Haraldi V. Haraldssyni arkitekt var falið að hanna breytingu á Hafnarstrætinu og Ráðhústorginu yfir í göngugötu.

1981 - Skipulag frá 1926 vék fyrir nýju

  • Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti nýtt skipulag fyrir miðbæjarsvæðið 7. apríl, sem tók við af skipulagi sem gert var 1926. Í desember samþykkti bæjarstjórn Akureyrar hönnunartillögu Haralds. Þá var einnig samþykkt fjárveiting upp á 1,15 milljónir króna til 1. áfanga verksins á árinu 1982.

1982 - Framkvæmdir hófust

  • Framkvæmdir hófust um haustið, fyrsti áfangi var að gera göngugötu frá Kaupvangsstræti að Ráðhústorgi. Í Morgunblaðinu 18. maí 1982 er farið lauslega yfir þennan fyrsta hluta framkvæmdarinnar. Sagt var frá því að skipt yrði um jarðveg, lagnir endurbættar og auknar, gengið frá undirstöðum fastra mannvirkja og malbikslag sett á. Ofan á malbikslagið kæmi síðan sex sentímetra þykkt sandlag og í það verði lagt hitunar- og snjóbræðslukerfi til að halda götunni auðri og þurri oftast nær, eins og það er orðað. Ofan á sandinn yrðu svo lagðir steinar í þremur gráum litum.
  • Bílaumferð yrði aðeins leyfð vegna vöruflutninga til verslana og vegna umferðar fatlaðs fólks.


Hvað sagði fólkið í spurningu dagsins - DVAK spyr?

1983 - Þrenns konar grár

  • „Akureyringar koma örugglega til með að eiga fegurstu götu á landinu þegar göngugatan þeirra, Hafnarstrætið, verður endanlega tilbúin,“ skrifar blaðamaðurinn KLP í DV 24. ágúst 1983. Þar er því lýst að sett hafi verið upp mjög skemmtileg og falleg ljós og byrjað að helluleggja alla götuna – en þó ekki helluleggja því á hana voru ekki settar venjulegar gangstéttarhellur heldur litlir steinar, 22 x 11 sentímetrar að stærð.
  • Fram kemur í fréttinni að notaðir yrðu 100 þúsund steinar til að þekja 2.500 fermetra í Hafnarstrætinu. Steinarnir voru í þremur gráum litum; ljósgráir, dökkgráir og steingráir. Steinunum var púslað saman eftir teikningu sem skipulagsfræðingar Akureyrarbæjar höfðu gert. Mynduðu þeir þannig margs konar mynstur í götunni sem átti að setja meiri svip á „þessa fallegustu götu landsins þegar hún verður tilbúin.“
  • Einnig er vitnað í Sigurbjörn Arngrímsson hjá Hellusteypunni, sem framleiddi steinana og sagði Sigurbjörn steinana myndu þola meira en venjulegar gangstéttarhellur. Stærstu vörubílar gætu keyrt á þeim án þess að á þeim sæist. Athygli verður punktur í ljósi þess sem síðar varð.
  • „Frost á ekki að hafa nein áhrif á steinana og snjór kemur ekki til með að sjást á þessari göngugötu Akureyringa. Plaströr, sem heitt vatn rennur um, er lagt undir steinana svo að greiðfært verður um hana þegar snjórinn fer að hrjá norðanmenn í vetur,“ segir Sigurbjörn einnig.


Starfsmenn Akureyrarbæjar púsla saman steinum í þremur gráum afbrigðum eftir forstkrif skipulagsfræðinga bæjarins.

Hljótt virðist vera um Göngugötuna í rúmlega áratug, ef marka má umfjöllun í prentmiðlum. Göngugatan fékk að vera göngugata og eflaust hafa heimamenn og gestir notið þess að heimsækja miðbæ Akureyrar. Eða hvað? Var hún kannski aldrei alveg bara göngugata og ekkert annað? Götunni var ekki lokað heldur komið fyrir skilti með banni við umferð, en undantekningum þó.

Ökumönnum var treyst, en traustið var ef til vill misnotað og hugtakið vörulosun teygt úr hófi að mati einhverra. Nánar um það í 2. hluta þessarar upprifjunar á sögu Göngugötunnar.

Á MORGUN ÖKUMENN MISNOTA VÖRULOSUNARRÉTTINN