Fara í efni
Fréttir

Humble minnkar matarsóun á Akureyri

Stofnendur Humble, Andri Geir Arnarson, Hlynur Rafn Guðmundsson og Steinn Arnar Kjartansson.

Augu margra hafa opnast fyrir mikilvægi þess að draga úr matarsóun. Meðal þeirra eru þremenningar sem gerðu smáforritið Humble sem  ku hafa gefið góða raun í Reykjavík og Akureyringar geta nú nýtt sér.

Humble er smáforrit þar sem hinn almenni neytandi getur keypt vörur á síðasta snúning á afslætti. Með þessu er stuðlað að minni matarsóun og aðgangi að hagstæðari vörum fyrir neytendur. Smáforritið hefur farið vel af stað í Reykjavík en á þriðja tug bakaría, sushi staða, mötuneyta, veitingastaða og heildsala hafa nýtt sér lausnina með góðum árangri, að sögn Hlyns Rafns Guðmundssonar, eins þremenninganna. Hinir eru Andri Geir Arnarson og Steinn Arnar Kjartansson.

Brauðgerðarhús Akureyrar í Sunnuhlíð býður nú reglulega upp á „bland í poka“ í lok dags – einskonar lukkupoka með brauði og bakkelsi, eins og Hlynur Rafn orðar það. „Humble hjálpar einnig heildsölum að koma vörum sem voru pantaðar í of miklu magni eða eru að nálgast best fyrir dagsetningu til neytenda Allar þurrvörur er hægt að fá sent með Dropp til Akureyrar,“ segir í tilkynningu frá Humble.

Smáforritið er aðgengilegt á Playstore og Appstore en búast má við að fleiri staðir á Akureyri munu bætast við flóruna af matsölustöðum sem leita allra leiða til þess að minnka matarsóun, segir Hlynur Rafn.