Fara í efni
Umræðan

Hugsum Ísland upp á nýtt

Atburðirnir á Reykjanesi undanfarin þrjú ár hafa ekki látið neinn ósnortinn. Hugur okkar er vitanlega hjá Grindvíkingum, sem nú eiga um sárt að binda, en ósennilegt má telja að hægt verði að flytja aftur inn í hús og hefja þar búsetu í náinni framtíð, samkvæmt mati okkar fremstu vísindamanna. Magnús Tumi Guðmundsson spurði t.a.m. spurningarinnar, hvort við myndum tjalda á sprungnum jökli með ung börn, sem setur þetta ágætlega í samhengi.

Sanngjarnasta niðurstaðan hlýtur að vera að kaupa eignir Grindvíkinga og gera þeim kleyft að búa sér líf annars staðar.
 
Frá 2021 var ljóst að risinn á Reykjanesi var rumskaður. Eins og það eitt og sér sé ekki ástæða til að hugsa hlutina upp á nýtt, þá eru Grímsvötn, Bárðarbunga og Askja einnig farin að minna hressilega á sig. Náttúran minnir okkur á, að þegar öllu er á botninn hvolft fáum við oft litlu ráðið um framvinduna, en getum við mögulega hagað skipulagi okkar ágæta samfélags öðruvísi í ljósi óvissu og óblíðrar náttúru?
 
 
Við núverandi aðstæður er galið að hugsa til þess að helstu innviðir þjóðarinnar, stjórnsýsla, menningarstofnanir, samgöngumannvirki, orkudreifing, ríkisfyrirtæki, og svo framvegis, skuli hafa verið byggðir upp á sömu þúfu, sem síðan hefur leitt til byggðaröskunar og ójafnræðis eftir búsetu. Séu meðfylgjandi myndir skoðaðar má furða sig á því hvers vegna engin langtímahugsun eða hagsmunamat virðist hafa verið lögð til grundvallar út frá hreinum öryggissjónarmiðum.
 
Var á engum tímapunkti í stefnumörkun ríkisins og stjórnmálastarfi flestra flokka spurt hvort stefnan væri rétt? Hvort ekki væri nú rétt að staldra við og íhuga hvort kúrsinn sé réttur til framtíðar?
 
Sem dæmi um hagfræðileg ruðningsáhrif ríkisframkvæmda er einfalt að benda á stórfellda uppbyggingu í Reykjavík einni og sér, þar sem Landspítali, Landsbankahús, Hús íslenskra fræða, Alþingisreitur, stúdentagarðar HR og HÍ, svo handahófskennd dæmi séu nefnd, hlaupa auðveldlega á 270 milljörðum. Svipuð fjárhæð er síðan undir á Keflavíkurflugvelli.
 
 
Það þarf ekki langlærða hagspekinga til að sjá hversu mikil innspýting slík fjárfesting er á afmarkaðan blett á landinu. Sé hins vegar einhver framkvæmd (segjum jarðgöng) á dagskrá utan höfuðborgarsvæðisins er það iðulega tíundað sem byggðapot, sértæk aðgerð eða ölmusu-spandans ríkisins í glórulaus verkefni. Þannig er fréttatilbúningurinn, en enginn deplar auga yfir milljarðatugum og hundruðum af opinberri fjárfestingu á höfuðborgarsvæðinu.
 
Hver sem er getur ímyndað sér staðbundna þenslu og hagfræðileg ruðningsáhrif, þar sem hver framkvæmd dregur til sín fólk, fjármagn og fyrirtæki.
 
Áhrifin ýkja síðan byggðaskekkjuna enn frekar, höfuðborgar-svæðinu „í vil“, sem þá rifnar enn frekar á saumunum, ruslið safnast upp og íbúar liggja á flautunni í endalausum umferðarhnút.
 
Lýst er eftir byggðastefnu og langtíma stefnumörkun fyrir framtíð lands og þjóðar, en fyrsta kastið mætti skoða flutning ríkisstofnana, einhverra ráðuneyta og annarrar sameiginlegrar þjónustu sem ekki er háð staðsetningu (ég frábið mér glósur um Fiskistofu, sem var góð hugmynd, en klaufalega útfærð), auk uppbyggingu stórs millilandaflugvallar á norð-austurhorni landsins (fara í staðarval með sérfræðingum og velja rétta staðinn út frá sérfræðigreiningu en ekki pólitík).
 
P.S. Hvassahraunsnefndin á enn eftir að skila niðurstöðu. Það flugvallarstæði er formlega enn til skoðunar. True story. 
 

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er flugmaður

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30