Hugað að breyttum siðum í nýjum grafreit

Reiknað er með 2.500 kistugröfum og 2.200 duftgröfum, auk svæða fyrir ómerktar grafir og duftdreifingu í fyrsta áfanga í tillögu að skipulagi framtíðargrafreits í Naustaborgum sem Landslag vann fyrir Kirkjugarða Akureyrar.
Tillaga að útfærslu á grafreit á um 5,6 hektara svæði í Naustaborgum var lögð fyrir skipulagsráð Akureyrarbæjar til kynningar fyrr í mánuðinum. Skipulagsráð telur æskilegt að skipulag svæðis fyrir grafreit verði hluti af skipulagi fyrir nýtt íbúðarsvæði og hluta af útivistarsvæði Naustaborga.
Íbúðarsvæðið sem vísað er til er á milli Kjarnagötu og Naustaborga. Skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við undirbúning deiliskipulags á svæðinu til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sem nú er í vinnslu og við nýsamþykkta húsnæðisáætlun.
Akureyri.net hefur áður fjallað um hugmyndir um grafreit á þessum stað í myndskreyttri frétt frá júní 2021. Undirbúningur að þessu verkefni hefur staðið í nokkur ár, en í desember 2022 sendi Smári Sigurðsson, fyrir hönd Kirkjugarða Akureyrar, óskaði eftir að unnið yrði deiliskipulag fyrir áformaðan grafreit í Naustaborgum.
Yfirlitsmynd sem sýnir tillögu að skipulagi grafreits í Naustaborgum. Smellið á myndina til að opna pdf-skjal með skipulagstillögunni í heild. Skjáskot úr skipulagstillögu sem unnin var af Landslagi
Aðkoma inn á svæðið er frá bílastæðum í austurjaðri grafreitsins og gert ráð fyrir aðkomutorgi og starfsmannaaðstöðu. Við hönnun var lögð mikil áhersla á að halda í núverandi gróður.
Í fyrsta áfanga grafreitsins er fyrirhugað að verði rými fyrir samtals um 2.500 kistugrafir og 2.200 duftgrafir. Gert er ráð fyrir svæði fyrir öskudreifingu og ómerktar duft- og kistugrafir. Einnig er gert ráð fyrir áningarstöðum, áhaldahúsi og minningar- og fósturreit.
Á klapparsvæði í suðurenda svæðisins er gert ráð fyrir duftgröfum, bæði við suður- og norðurenda svæðisins. Mögulegt verður að bæta við duftgrafarsvæðum í garðinum eftir því hvernig kröfur og grafarsiðir í samfélaginu þróast, að því er fram kemur í skipulagstillögunni. Þá er einnig hugsað fyrir möguleika á öskudreifingu, annars vegar við tjörnina í suðurenda svæðisins og í skógarreit/klapparsvæði á norðurhluta þess.
Á þessari mynd má meðal annars sjá hvar gert er ráð fyrir duftgröfum í nýja grafreitnum. Skjáskot úr tillögunni.
Hugmyndin er að bæði í suður- og norðurjaðri umrædds svæðis verði möguleiki á öskudreifingu.
Horft í austur yfir það svæði þar sem gert er ráð fyrir grafreit, í átt að Hagahverfi. Á túninu á milli er gert ráð fyrir íbúðasvæði og telur skipulagsráð æskilegt að skipulag svæðis fyrir grafreit verði hluti af skipulagi fyrir nýtt íbúðarsvæði og hluta af útivistarsvæði Naustaborga.