Hrekkjavaka á Akureyri – Grikk eða gott?
Áhugasamir foreldrar um hrekkjavökuna hafa tekið saman lista yfir þau heimili á Akureyri sem krakkar í hrekkjavökubúningum geta heimsótt þann 31. október og boðið gott eða grikk
„Mér fannst vanta formlegt utanumhald um þetta og í fyrra tók ég að mér að búa til skjal yfir þau heimili sem vildu taka á móti börnum á hrekkjavökunni. Ég var því sjálfkjörin í verkið aftur í ár,” segir Jónbjörg Sesselja Hannesar- og Guðrúnardóttir sem heldur úti Facebooksíðunni „Hrekkjavaka á Akureyri” ásamt Þorbjörgu Dagnýju Kristbjörnsdóttur. Jónbjörg segir að uppátækið hafi fengið mjög góðar undirtektir í fyrra og í ár eru nú þegar meira en 50 heimili komin á listann. „Þetta er allt gert fyrir krakkana, þeir hafa svo gaman af þessu.”
Allt til gamans gert
Jónbjörg og hennar fjölskylda bjuggu fimm ár í Hafnarfirði og þar var sama fyrirkomulag haft á þ.e.a.s. fólk gat skráð sig á lista ef það vildi vera með. „Þó fólk skreyti heimili sitt í tilefni af hrekkjavökunni er ekki víst að það vilji endilega fá heimsókn frá börnum sem biðja um sælgæti, það eru ekki allir sem hafa efni á því að gefa nammi, svo það er sniðugt að hafa lista sem börnin geta farið eftir.”
Trick or treat, segja börn í Bandaríkjunum þegar þau banka uppá hjá fólki: Grikk eða gott.
Hún segir að hrekkjavakan sé í raun pínu eins og öskudagurinn, þ.e.a.s. börnin klæða sig upp í búninga, banka upp á en þurfa ekki að syngja til þess að fá nammi. Í Bandaríkjunum sé hefðin þannig að ef börnin fái ekki nammi þá gera þau fólki grikk, henda eggjum í húsið eða kasta klósettpappír í garðinn. „En þetta er nú voða saklaust hér á Íslandi og þess vegna líka gott að hafa svona skjal yfir húseigendur sem vilja taka þátt. Hér er þetta bara til gamans gert, skemmtileg tilbreyting í skammdeginu á meðan í Bandaríkjunum er þetta allt miklu stærra, þar fer fólk t.d. út á akur til að velja sér grasker og sker það svo út, svolítið eins og þegar við förum út í skóg um jólin og finnum okkur jólatré,” segir Jónbjörg.
Hveiti og rauður varalitur
„Það er misjafnt hvað fólk leggur mikið í þetta hér á Akureyri. Sumir húseigendur klæða sig upp og hræða börnin smá áður en þau fá gotterí. Gotteríið getur verið allskonar bara það sem fólki dettur í hug, smá popp í poka, sleikjó eða annað sælgæti,” segir Jónbjörg sem sjálf ætlar að klæða sig upp og taka á móti börnum á heimili sínu í Ásveginum. „Við byrjum yfirleitt að skreyta heimilið helgina fyrir sjálfa hrekkjavökuna og krakkarnir búa sjálfir til sína búninga,” segir Jónbjörg og bætir við að að tilkostnaðurinn þurfi ekki að vera mikill, það sé hægt að komast langt á því sem til er heima, ekki síst með hveiti og rauðan varalit. Inn á facebooksíðunni Hrekkjavaka á Akureyri er líka að finna skemmtilegar hugmyndir að skreytingum fyrir heimilið og öðru er tengist hrekkjavökunni. Þar er líka áðurnefndan lista að finna yfir hús sem taka á móti börnum í búningum á Akureyri þann 31. október. Enn er tækifæri til þess að skrá sig á listann fyrir þá sem vilja vera með.
Fleiri viðburðir á Akureyri tengdir hrekkjavökunni:
- Halloween skautadiskó og ball í Skautahöllinni 27. 28. og október
- Hrekkjavökutónleikar Tónak í Hofi 31. október kl. 18. Frítt inn.
Milli kl.17.00 og 20.00 þriðjudaginn 31. október munu ákveðnir húseigendur á Akureyri taka á móti börnum í hrekkjavökubúning. Heimilisföngin er að finna inn á Facebooksíðunni Hrekkjavaka á Akureyri.