Hörpusláttur í Hofi á sunnudaginn

Ljósi verður varpað á hörpu, það hljómfagra og merkilega hljóðfæri, þegar Elísabet Waage hörpuleikari og meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands koma fram á tónleikum í Hofi á sunnudaginn.
Tilefnið eru kaup Menningarfélags Akureyrar á konserthörpu fyrir Sinfóníuhljómsveitina. Upphafið má rekja til ársins 2023 þegar 30 ára starfsafmæli hljómsveitarinnar var fagnað en á þeim tímamótum sameinuðust Akureyrarbær, KEA og Menningar- og viðskiptaráðuneytið og færðu Menningarfélagi Akureyrar og Tónlistarskóla Akureyrar peningagjöf til kaupa á hörpu.
Elísabet Waage, sem mun leiða gesti í tali og tónum í gegnum sögu hörpunnar ásamt Sinfóníuhljómsveitinni á sunnudaginn, fór fyrir hönd kaupenda vestur til Chicagoborgar í Bandaríkjunum þar sem hún sérvaldi hörpu fyrir starfsemina. Hún segir nauðsynlegt að prófa hörpur áður en þær eru keyptar og því hafi verið einkar gott að hún hafi farið alla þessa leið í leit að þeirri einu réttu. Hún prófaði 10 hörpur, sendi hljóðdæmi til kennara og kollega á Íslandi og úr varð að rétta harpan var valin.
Elísabet mun fræða gesti lítillega um þau verk sem eru á efnisskránni ásamt því að útskýra sögu hörpunnar, virkni og þá tækni sem krafist er af hörpuleikara.
Tónleikarnir á sunnudaginn verða í Hömrum í Hofi og hefjast kl. 16.00.
Hér má sjá efnisskrá tónleikanna og einnig finna hlekk á miðasöluna.
Elísabet Waage sérvaldi konserthörpu fyrir Akureyringa í Chicagoborg í Bandaríkjunum og leikur í hljóðfærið á sunnudaginn.
Afar mikilvægt hljóðfæri
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, sagði þegar hljóðfærið kom í Hof um mitt síðasta ár að harpa væri oft afar mikilvægt hljóðfæri í sinfónískri tónlist. „Og til að virka sem sú litapalletta sem hún er svo oft nýtt í þarf þetta að vera alvöru konsertharpa í topp standi. Það að hafin verði kennsla á hörpu í [Tónlistarskólanum á Akureyri] tryggir að henni verður haldið vel við og reglulega spilað á hana. Alvöru konserthörpur eru tignarleg en um leið viðkvæm hljóðfæri,“ sagði Þorvaldur Bjarni. „Að þurfa flytja hörpu frá Reykjavík í hvert sinn sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands vantar eina, er bæði kostnaðarsamt og getur farið illa með hljóðfærið. Þess vegna er þessi hörpugjöf gríðarlega mikilvæg fyrir tónlistarlífið á Akureyri,“ sagði tónlistarstjórinn.