Fara í efni
Fréttir

Hopp leigubílar í boði á Akureyri

Fram til þessa hefur eingöngu verið hægt að panta leigubíl á Akureyri hjá BSO, Bifreiðastöð Oddeyrar. Það er nú að breytast því leigubílaþjónusta Hopp hefur hafið starfsemi á Akureyri.

„Það kannast flestir við Hopp-hjólin sem Akureyringar hafa verið duglegir við að nýta sér frá því þau birtust á götum bæjarins,“ segir í tilkynningu frá Hopp í dag. „Gilið breyttist úr fjallgöngu í skemmtiferð og vegalengdir urðu allar talsvert styttri í einu vetfangi. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan íslenskir frumkvöðlar stofnuðu Hopp fyrir um fimm árum eða svo – næstum jafnmikið og flæddi upp á Eyrina í gær.“

Leigubíla Hopp er bara hægt að bóka í gegnum Hopp appið. „Strax í dag geta Akureyringar séð nýjan flipa uppi í hægra horninu í Hopp-appinu, þar sem hægt er að panta sér bíl,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að appið sýni notendum hvað það sé langt í bílinn og að verðið sé reiknað út fyrirfram, „svo veskið er á engum tímapunkti dregið upp eða posanum veifað í flasið á manni. Með tilkomu leigubíla Hopp er því hægt að spjalla aðeins lengur á meðan appið sér um að fylgjast með staðsetningu bílsins eða bara að setja í eina þvottavél á meðan beðið er eftir farinu.“

Hopp hefur farið úr því að vera lítil rafskútuleiga með nokkur hjól yfir í að vera með starfsemi vítt og breitt um landið, og raunar í 20 öðrum löndum, að því er fram kemur í tilkynningunni. „Hopp er líka mjög stolt af því að heimamenn halda utan um rekstur hjólanna í hverju bæjarfélagi fyrir sig og því er mikið lagt upp úr því að mynda sterk tengsl við nærsamfélagið í hverju tilviki.“

Hopp leigubílaþjónustan hóf starfssemi á Íslandi 2023 og er nú í boði á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvelli.