Fara í efni
Fréttir

Hönnuðu og settu upp frystikerfi Þorbjörns

Hluti af hinu nýja frystikerfi í landvinnslu Þorbjörns hf. í Grindavík.

Í lok október lauk Kælismiðjan Frost við uppsetningu og frágang á frystikerfi í bolfiskvinnslu sjávarútvegsfyrirtækisins Þorbjörns hf. í Grindavík. Með nýja kerfinu segir Jóhann Vignir Gunnarsson, sem hefur framleiðslu- og markaðsmál Þorbjörns hf. á sinni könnu, að opnist ýmsir nýir möguleikar fyrir fyrirtækið í framleiðslu og markaðssetningu sjávarafurða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kælismiðjunni Frost.

Þar segir ennfremur:

Síðastliðinn vetur fól Þorbjörn hf. Frosti að hanna og setja upp nýtt frystikerfi í landvinnslu fyrirtækisins í Grindavík. Í endaðan mars fór Frost í þarfa- og stærðargreiningu á nýju frystikerfi og í framhaldinu var það hannað. Rafhönnun var einnig í höndum Frosts. Síðastliðið sumar var byggt nýtt hús við hlið vinnsluhúss Þorbjörns fyrir vélasal og í hann hefur frystibúnaðinum verið komið fyrir.

„Það má í stórum dráttum segja að við höfum unnið að þessu frá vormánuðum og fram undir lok október. Frost hannaði kerfið, setti það upp, lagði og tengdi allar lagnir, þar með taldar raflagnir, og setti upp stjórntöflur. Þá voru settir upp nýir frystiblásarar auk þurrkerfis fyrir frystigeymslurnar. Verkinu er lokið og búið er að ræsa kerfið og prófa allan búnað. Gamla kerfið var keyrt á ammoníaki og það sama gildir um þetta nýja kerfi. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og ég tel að tekist hafi að vinna þetta hratt og örugglega. Ég er mjög ánægður með útkomuna,“ segir Bjartmar Egill Harðarson, verkefnastjóri hjá Frost.

Mun betra frystikerfi

„Áður vorum við með plötufrysta og frystiklefa. Gamla frystikerfið var sett upp á sjöunda áratug síðustu aldar og því var það komið til ára sinna. Kerfið var orðið þungt í viðhaldi og erfitt að fá í það varahluti. Nýlega keyptum við lausfrysti og bættum við kerfið en það var alveg ljóst að við þyrftum að fara í gagngerar endurbætur því það uppfyllti ekki nýjustu reglugerðir. Niðurstaðan var því sú að skipta út gamla kerfinu og setja upp nýtt,“ segir Jóhann Vignir Gunnarsson hjá Þorbirni hf.

„Við fengum Frostmenn í verkið og þeir unnu það hratt og vel og allar áætlanir þeirra stóðust. Við endurbættum frystiklefann, klæddum hann með yleiningum og tókum hann í gegn að innan. Á heildina litið erum við komnir með mun betra frystikerfi en áður sem er á allan hátt auðveldara að halda við og það keyrir á mun hagkvæmari hátt en gamla kerfið. Það uppfyllir allar nýjustu reglugerðir sem gamla kerfið gerði ekki. Eftirlitið verður einnig mun markvissara en áður og nú getur Frost fylgst með virkni kerfisins frá degi til dags í gegnum netið. Lausfrystirinn sem við höfum tengt við nýja kerfið eykur möguleika okkar verulega í framleiðslunni. Meðal annars höfum við nú möguleika á því að frysta léttsöltuð þorskflök og einnig að lausfrysta hefðbundin flök inn á Ameríku- og Evrópumarkað. Þá getum við lausfryst þorskhrogn sem við höfum áður sent fersk frá okkur. Við höfum eingöngu verið í þorskvinnslu en með þessum breytingum horfum við til þess að geta einnig m.a. unnið ufsa, ýsu og karfa. Við erum mjög ánægðir með útkomuna og samstarfið við Frost,“ segir Jóhann Vignir.