Fara í efni
Mannlíf

Alþjóðlegt hinseginblað fjallar um Akureyri

Hinar ýmsu útgáfur 'Elska' frá borgum um allan heim. Akureyri er næst. Mynd: Aðsend

'Elska', er nafnið á alþjóðlegu tímarit fyrir karlmenn í hinsegin samfélaginu. Hvert blað sem er gefið út, fjallar um ákveðna borg eða bæ, og næst á dagskrá er höfuðborg hins bjarta norðurs – Akureyri. Liam Campbell er ritstjóri, eigandi og ljósmyndari tímaritsins, og hann er nýbúinn að vera í bænum, þar sem hann hitti og myndaði karlmenn á svæðinu sem vildu vera með í útgáfunni 'Elska – Akureyri'. Liam er upphaflega frá London, en býr í New York.

Akureyri var eiginlega strax hið augljósa val, en ég hafði vissulega áhyggjur af því að fá ekki næga þáttöku

„Ég er ekki tilbúinn til þess að gefa neitt upp um þáttakendur eða sýna ykkur myndir,“ segir Liam, í samtali við Akureyri.net.

„Blaðið kemur út í haust, og þá getið þið séð það með eigin augum. Ég get sagt þér samt, að ferðin gekk mjög vel. Akureyringarnir voru viljugri í samtalið heldur en margir í stærri borgum, sem kom svolítið á óvart. Það voru ekkert allir sem vildu vera með í blaðinu, en óskuðu mér þó samt góðs gengis og spjölluðu.“

Liam segist ekki vera aðeins með Akureyringa í blaðinu, heldur líka einhverja frá nærliggjandi bæjum í Eyjafirði og alla leið í Mývatnssveit. „Þetta verður sennilega sú útgáfa blaðsins, sem gefur besta mynd af dreifbýli, og ég hef aldrei verið með svona mikið af myndum úti í náttúrunni.“ 

 

Myndir úr 'Elska – Reykjavík'.

„Elska kom fyrst út árið 2015. Fyrsta útgáfa beindi kastljósinu að borginni Lviv í Úkraínu,“ segir Liam. „Síðan höfum við gefið út fimmtíu blöð. Hvert einasta fjallar um ákveðna borg eða bæ, og leitast er eftir því að kynnast karlmönnum úr hinsegin samfélaginu á hverjum stað. Af hverjum manni eru ljósmyndir og frásagnir, blanda af dagbókarskrifum mínum frá myndatökunni og texta frá þeim sjálfum. Myndirnar eru allskonar, sumir vilja bjóða upp á einhverja nekt, en það er alls ekki alltaf. Áherslan er að kynnast þessum mönnum á mannlegu nótunum.“ 

Ég var átján ára, í Reykjavík, þar sem enginn þekkti mig og engum fannst athugavert að ég væri samkynhneigður

Sterk tilfinningatengsl við Ísland

Nafnið á blaðinu er úr íslensku orðabókinni. Ástæðan fyrir því er að Ísland er fyrsta landið sem Liam ferðaðist til og hann hefur átt í sterku, tilfinningalegu sambandi við landið síðan. „Hérna kviknaði ástríðan fyrir ferðalögum, en fyrst og fremst átti ég fyrstu reynsluna af því, að vera opinskátt samkynhneigður á Íslandi. Ég var átján ára, í Reykjavík, þar sem enginn þekkti mig og engum fannst athugavert að ég væri samkynhneigður. Ég fann sjálfstraustið innra með mér vaxa, til þess að þora að vera ég sjálfur,“ segir Liam, en hann hefur komið rúmlega fimmtíu sinnum til Íslands síðan. Seinna, þegar Liam var farinn að gefa út blaðið, fæddist 'Elska – Reykjavík' árið 2016.

„Þar sem ég fjalla aldrei um sömu borgina tvisvar, varð ég að beina sjónum mínum annað,“ segir Liam. „Akureyri var eiginlega strax hið augljósa val, en ég hafði vissulega áhyggjur af því að fá ekki næga þáttöku. Fólksfjöldinn er svo lítill, miðað við borgirnar sem ég vinn oftast með. Þar sem tíu ár voru liðin frá því að ég gaf síðast út blað á Íslandi, ákvað ég samt að reyna.“

 

Liam Campbell. 

Ekki í fyrsta skipti á Akureyri

„Ég var reyndar búinn að koma hingað einu sinni áður,“ segir Liam. „Það var vinnutengt, ég gaf út bók rétt fyrir Covid faraldurinn um sundlaugar á Íslandi. Þar komu sundlaugarnar á Akureyri, Þelamörk, Dalvík og á Ólafsfirði við sögu, en bókin heitir ‘Fifteen Icelandic Swimming Pools’, og er uppseld fyrir löngu. Ég þekkti því svæðið aðeins, en kynntist bænum miklu betur núna þar sem ég var hérna í rúma viku.“ Liam segir að það hafi verið mjög áhugavert að kynnast fólki hérna, sjá hversu mikil áhrif veðrið hefur á daglegt líf, til dæmis.

Sú staðreynd, að yngra fólkið er ekki að 'flýja', nema kannski rétt til þess að skoða heiminn og koma aftur heim, eru ótrúlega góðar fréttir

„Það vakti líka áhuga minn, hversu opnir viðmælendur mínir voru,“ segir Liam. „Það hefur til dæmis alltaf verið valfrjálst, auðvitað, hvort að menn vilji sýna einhverja nekt í myndatökunum. Reykjavíkurblaðið var til dæmis eitt af þeim sem inniheldur minnsta nekt, en Akureyrarblaðið verður alls ekki þar. Kannski er fólkið hérna fyrir norðan bara afslappaðra, eða kannski er ástæðan einfaldlega sú að það eru tíu ár síðan ég gaf út blað í Reykjavík og samfélagið í heild hafi breyst eitthvað.“

Flestir viðmælendur voru í sambandi

Aðspurður um það, hvernig honum finnist hinsegin samfélagið á Akureyri þrífast, segir Liam að hann taki eftir breytingu til hins betra. „Ég hafði heyrt margar sögur af því, að fólk af fyrri kynslóðum hafi yfirleitt farið héðan. Annað hvort til Reykjavíkur eða erlendis, sérstaklega til Danmerkur. Sú staðreynd, að yngra fólkið er ekki að 'flýja', nema kannski rétt til þess að skoða heiminn og koma aftur heim, eru ótrúlega góðar fréttir,“ segir hann.

„Það vakti áhuga minn, að 80% af þeim mönnum sem ég hitti fyrir blaðið, voru í pörum,“ segir Liam. „Kannski er það tilviljun, eða kannski gefur það til kynna að samkynhneigðir karlmenn velji frekar að búa hérna ef þeir eru í sambandi. Ef þeir væru á lausu, myndu þeir kannski velja að búa í stærra samfélagi. Þau pör sem ég hitti, voru þannig samsett að annar aðilinn var héðan en hinn var aðfluttur, þá frá öðrum stöðum á Íslandi eða erlendis frá. Kannski er Reykjavík fyrir einhleypa homma en Akureyri fyrir þá ráðsettu,“ veltir Liam fyrir sér að lokum. Áhugasöm um útgáfu 'elska' frá Akureyri, er bent á heimasíðu tímaritsins.

 

Ljósmynd úr 'Elska – Reykjavík'.