Fara í efni
Fréttir

Hlýtt, þurrt og hæglátt á Einni með öllu

Himinninn er heiður og blár á þessari mynd og mávinum líkar það ágætlega, en ólíklegt er að við sjáum svona himin um verslunarmannahelgina á Akureyri. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Akureyringar og gestir þeirra losna líklega við rigninguna sem verið hefur í dag og í gær, en samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir Norðurland eystra sem gefin var út í morgun og gildir fram á sunnudag styttir upp í kvöld. Vindur verður heldur hægari á morgun en í dag, rigning með köflum norðantil, en annars þurrt. Hlýnar í veðri.

Góða veðrið sem Akureyringar þekkja svo vel verður því hreint ágætt um helgina þó hér hafi bæði sést betra og verra.

Búast má við meinlausu hæglætisveðri á Akureyri næstu tvo daga, engin ofsahlýindi og líklega lítil hætta á því að heimafólk og gestir verði sólbruna að bráð. Samkvæmt veðurvefnum Blika.is verður þurrt, hægur vindur og 13-14 gráðu hiti á morgun og sunnudag, en búast má við rigningu á mánudag. Smellið á myndina til að skoða spá Bliku fyrir næstu daga hér á Akureyri.

Sjálfvirk spá Veðurstofu Íslands fyrir veðurathugunarstöðina við Krossanesbraut er heldur bjartsýnni, með 16 gráðu hita og skýjuðu á laugardag, en 17 gráðum og sól á sunnudag. Smellið á myndina til að skoða spár Veðurstofu Íslands á vedur.is.