Hlýindi í dag – en hvenær koma hretin?

Er komið sumar? Ekki samkvæmt dagatalinu. Enn eru tvær og hálf vika þar til sumardagurinn fyrsti, eins og fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl og fyrsti dagur hins forna mánaðar Hörpu er jafnan kallaður. En veðrið þetta árið virðist vera nokkrum vikum á undan dagatalinu. Hlýindi dagsins í dag benda að minnsta kosti til þess.
Akureyringum tekst þó örugglega að rifja upp að hin og þessi hretin eigi eftir að skella á okkur út frá hinum eða þessum viðburðum. Hvenær er aðalfundur KEA? Hvenær eru páskarnir? Er ekki von á hreti?
Að væntanlegum vorhretum slepptum verður ekki annað sagt en að veðrið hafi leikið við Akureyringa að undanförnu og von er á mjög góðum degi í dag, jafnvel svipuðu næstu daga þó hitastigið verði lægra, ef marka má veðurspár.
Hlýtt fram eftir vikunni
Almenn spá Veðurstofu Íslands fyrir allt landið segir okkur að í dag verði lengst af þurrt og bjart hér nyrðra, hiti á landinu 7-18 stig, hlýjast hér norðaustantil. Allvíða þó skýjað á morgun og hiti á bilinu 5-13 stig. Næstu daga verður áfram hlýjast norðaustanlands og hámarkshiti á bilinu 12-15 stig þar sem hlýjast verður. Á föstudag gæti kólnað og á laugardag getur mögulega verið von á stöku élum hér fyrir norðan.
Sunnudagurinn næsti er pálmasunnudagur og þá er útlit fyrir norðaustlæga átt, skýjað að mestu og sums staðar él eða slydduél. Víða vægt frost.
Hugleiðingar veðurfræðings með spá sem gerð var kl. 6:35 í morgun: „Eins og að undanförnu verður sunnan gola eða kaldi, en strekkingsvindur við suðvestur- og vesturströndina. Skýjað og smá væta öðru hverju, en lengst af bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Fremur hlýtt og hiti gæti náð 15 til 18 stigum fyrir norðan og austan í dag þegar best lætur. Svalara fyrir norðan á morgun en annars svipað veður. Á miðvikudag og fimmtudag er síðan spáð rigningu víðast hvar, þó síst á Austurlandi og eftir þá er útlit fyrir kólnandi veður.“
Hvenær koma hretin?
En til að svara spurningunum sem varpað var fram hér að ofan þá verður aðalfundur KEA haldinn þriðjudaginn 22. apríl, tveimur dögum fyrir sumarkomuna. Alveg upplagður dagur fyrir hret. Páskadagur er tveimur dögum áður, 20. apríl, og mögulega kemur hret í dymbilvikunni eða á páskadag, hver veit?
Er von á hreti? Páskahreti? Kaupfélagshreti? Hver veit? Mynd: Haraldur Ingólfsson.