Fara í efni
Fréttir

Hjólar í sólarhring og safnar áheitum

Sóley Kjerúlf Svansdóttir veifar til viðstaddra þegar hún lagði af stað frá Hrafnagilsskóla í dag. Nokkrir hjóluðu með henni fyrsta spölinn, m.a. Anna Lilja Sævarsdóttir. Myndir: Þorgeir Baldursson

Sóley Kjerúlf Svansdóttir lagði af stað í óvenjulegan hjóltúr frá Hrafnagilsskóla klukkan fimm síðdegis í dag. Hún hyggst hjóla í hring í sólarhring, ef svo má segja, og safna í leiðinni áheitum til stuðnings góðu málefni.

Tilgangurinn er að hlaupa undir bagga með foreldrum sem ætla að kaupa sérsmíðað þríhjól handa sex ára einhverfum syni sínum. Hjólið kostar um 550.000 krónur. Drengurinn, Bergsteinn, sem er með alvarlega þroskaskerðingu hefur gaman af hvers kyns útiveru en á erfitt með að hjóla á tvíhjóli, að því er segir í auglýsingu um áheitasöfnunina. Þríhjólið er sérstaklega hannað að hans þörfum.

Sóley ætlar að hjóla minni Eyjafjarðarhringinn, sem svo er kallaður, í heilan sólarhring. Hún gerir ráð fyrir að fara alls 13 hringi sem munu vera alls um 350 kílómetrar.

Nokkrir aðrir hjólreiðamenn fylgdu henni fyrsta spölinn í dag; hjólað var frá Hrafnagilsskóla norður að Leiruvegi á Akureyri, austur hann og síðan Eyjafjarðarbraut eystri til suðurs að Laugalandi þaðan sem haldið var vestur Miðbraut, yfir að Eyjafjarðarbraut vestri og að Hrafnagili ... 

Allir eru velkomnir að hjóla með Sóleyju hvenær sem þeir vilja og upplýst verður allan sólarhringinn á instagram aðgangi hennar - soleys - hvar og hvenær hægt er hjóla með henni. 

Styrktarreikningur hefur verið stofnaður í nafni Sóleyjar.

  • Bankanúmer: 0511 - 14 - 071950
  • Kennitala: 120789 - 4229

Bergsteinn, strákurinn sem verið er að safna fyrir, var á staðnum þegar hjóltúrinn hófst í dag.